Fyrrum fangavörður nasista dæmdur

Reinhold Hanning.
Reinhold Hanning. AFP

Dómstóll í Þýskalandi dæmdi í dag fyrrverandi fangavörð SS-sveita nasista í fimm ára fangelsi fyrir að hafa tekið þátt í fjöldamorðum í fangabúðunum í Auschwitz.

Maðurinn, Reinhold Hanning, er 94 ára gamall. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði átt þátt í því að í það minnsta 170 þúsund manns voru myrtir í búðunum á árunum 1942 til 1944.

Hanning starfaði sem fangavörður í búðunum um þriggja ára skeið. Hann sagðist fyrir dómi hafa vitað hvað hefði átt sér stað í búðunum, en ekki hafa gert neitt til þess að stöðva það, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Alls myrtu nasistar um 1,1 milljónir manna, aðallega gyðinga, í búðunum í Auschwitz í suðurhluta Póllands.

Réttarhöld yfir Hanning stóðu yfir í um fjóra mánuði í þýsku borginni Detmold en dómurinn var kveðinn upp fyrr í dag.

Sjónarvottar segja að Hanning, sem er í hjólastól, hafi þagað þunnu hljóði þegar dómarinn kvað upp úrskurðinn og ekki látið neinar tilfinningar í ljósi. Forðaðist hann augnsamband við viðstadda í réttarsalnum.

Talið er að réttarhöldin yfir honum verði ein hin síðustu yfir fyrrverandi liðsmönnum SS-sveitanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert