Blaðamenn dæmdir til dauða

Mohamed Morsi, fyrrverandi forseti Egyptalands, var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi. Sex sakborningar í sama máli voru dæmdir til dauða. Morsi hefur áður verið dæmdur til dauða í öðru máli.

Morsi var fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Egyptalands en honum var steypt af stóli árið 2013. Hann hlaut í dag lífstíðardóm fyrir að hafa leitt ólögleg samtök auk þess sem hann hlaut fimmtán ára dóm fyrir að hafa í sínum meðförum stolin skjöl er vörðuðu ríkisleyndamál. Hann var hins vegar sýknaður af ákæru um að hafa veitt skjölunum áfram til Katar.

Þeir sem dæmdir voru til dauða voru dæmdir fyrir að hafa komið umræddum skjölum er innihéldu ríkisleyndarmál áfram til Katar. Þrír af þeim starfa sem blaðamenn og þar af tveir fyrir Al-Jazeera. 

Stjórnendur Al-Jazeera hafa fordæmt dóminn og segja hann vera af pólitískum toga. Þá sé með þessu harkalega vegið að tjáningarfrelsinu og frjálsri fjölmiðlun.

Blaðamennirnir tveir sem störfuðu fyrir Al-Jazeera heita Ibrahim Mohamed Hilal og Alaa Omar Mohamed Sablan, sem er jórdanskur ríkisborgari. Samkvæmt AFP heitir þriðji blaðamaðurinn Asmaa Mohamed al-Khatib og starfar hún fyrir fréttaveituna Rassd sem styður Bræðralag múslima.

Mohamed Morsi við dómsuppkvaðninguna í dag.
Mohamed Morsi við dómsuppkvaðninguna í dag. AFP
Sex manns voru dæmdir til dauða í dag.
Sex manns voru dæmdir til dauða í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert