Aldrei verið fleiri á flótta

54% flóttamanna og hælisleitenda koma frá Sýrlandi, Afganistan og Sómalíu.
54% flóttamanna og hælisleitenda koma frá Sýrlandi, Afganistan og Sómalíu. AFP

Aldrei hafa fleiri jarðarbúar verið á flótta eða á hrakningum vegna stríðsátaka að því er fram kemur í skýrslu frá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin áætlar að 65,3 milljónir manna hafi í lok síðasta árs flokkast sem flóttamenn, hælisleitendur eða verið á hrakningi vegna átaka, og er það fimm milljónum fleiri en árið á undan.

Fjöldinn jafngildir því að einn af hverjum 113 jarðarbúum sé á flótta eða í leit að hæli. Fréttavefur BBC hefur eftir Filippo Grandi, framkvæmdastjóra Flóttamannahjálparinnar, að vaxandi kynþáttahatur í Evrópu á sama tíma og álfan reyni að takast á við mesta straum flóttamanna frá síðari heimsstyrjöldinni, sé einnig áhyggjuefni.

Í ársskýrslu Flóttamannahjálparinnar kemur fram að þetta sé í fyrsta skipti sem meira en 60 milljónir manna eru á flótta eða í leit að hæli, en alþjóðadagur flóttamanna er í dag.

Yfir helmingur flóttamanna og hælisleitenda kemur frá aðeins þremur löndum, Sýrlandi, Afganistan og Sómalíu.

Þótt mikil athygli beinist nú að flóttamannavandanum í Evrópu, dvelja um 86% allra flóttamanna og hælisleitanda í ríkjum sem búa við meðalgóðan eða lakan efnahag.

Tyrkland er það ríki sem hýsir hvað flesta flóttamenn, en 2,5 milljónir flóttamanna og hælisleitenda dvelja nú í Tyrklandi. Þau ríki sem fylgja í kjölfarið eru Pakistan og Líbanon.

Rúmlega ein milljón flóttamanna kom sjóleiðina til Evrópu í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðastofnun innflytjendamála (IOM), þó aðrar stofnanir telji fjölda þeirra sem koma sjóleiðina vera mun meiri.

Flestir flóttamenn vilja fá hæli í efnuðum ríkjum á borð við Þýskaland og Svíþjóð og endurspeglast þetta í tölum Flóttamannahjálparinnar fyrir hælisumsóknir. Þannig sækja flestir um hæli í Þýskalandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert