Hvítir og eldri kjósa frekar með úrsögn

AFP

Eldri kjósendur í Bretlandi og þeir sem eru hvítir á hörund eru líklegri til þess að kjósa með úrsögn úr Evrópusambandinu en aðrir hópar í landinu og eru jafnframt líklegri til þess að mæta á kjörstað eins og sást í þingkosningunum í Bretlandi á síðasta ári. Þetta segir Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, sem var fenginn til þess að spá í spilin fyrir Brexit-kosningarnar á fimmtudaginn.

Í síðustu þingkosningum í Bretlandi sýndu kannanir í aðdraganda kosninganna að Íhaldsflokkurinn næði ekki meirihluta, sem hann fékk naumlega á endanum. „Eldri kjósendur og hvítir á hörund mættu frekar en aðrir sem tryggði meirihluta Íhaldsflokksins á þingi. Þessi hópur er líklegri til að greiða atkvæði með úrsögn og því er úrsagnar-hópurinn sterkari en hinn,“ segir Baldur.

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands.
Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verði kjörsókn dræm er því líklegt að niðurstaða Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði á þann veg að Bretar segja sig úr sambandinu en aðeins tveir dagar eru til kosninga þar sem borin verður upp spurningin: „Ætti Bretland að vera áfram í Evrópusambandinu eða segja sig úr Evrópusambandinu?“

Samkvæmt skoðanakönnunum sem birtust í bresku blöðunum í morgun er hnífjafnt á milli þeirra sem vilja úrsögn úr sambandinu og þeirra sem vilja vera áfram inni eftir að skoðanakannanir gærdagsins sýndu meiri stuðning við áframhaldandi veru.

Spurning hvað verður um stuðningsbylgju áframhaldandi aðildar 

Baldur segir þróunina undanfarna daga líka því sem gerðist í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar í Skotlandi þegar kosið var um sjálfstæði frá Bretum. Um það bil viku fyrir atkvæðagreiðsluna mældist stuðningur í könnunum meiri við sjálfstæði en eftir því sem nær dró kosningum jókst kraftur þeirra sem vildu áframhaldandi samband við Bretlandseyjar og þeir gáfu í.

„Kjósendur hölluðu sér í vaxandi mæli að þeim sem kusu með áframhaldandi sambandi við Bretlandseyjar á síðustu dögum kosningabaráttunnar. Við virðumst vera að sjá svipaða þróun þó svo að við vitum ekki hvað kemur upp úr kössunum,“ segir Baldur.

Hann segir ómögulegt að spá fyrir um hver úrslit kosninganna verða. „Það fer eftir tvennu,“ segir Baldur. „Það er ákveðin bylgja með þeim sem vilja áframhaldandi aðild að ESB, sem hefur verið í gangi síðustu fimm, sex daga. Ef hún heldur fram á kjördag þá gæti það orðið niðurstaðan að Bretar verði áfram í ESB.“

Írar gætu grætt á úrsögn Breta, verði það niðurstaða kosninganna.
Írar gætu grætt á úrsögn Breta, verði það niðurstaða kosninganna. AFP

Baldur segir aftur á móti að ef kjörsókn verður dræm sé líklegt að úrsögn verði ofan á. „Hvað gerist á kjördag? Það einfaldlega vitum við ekki. Þetta verða mjög spennandi kosningar, m.a. vegna þess að kjörsókn er ólík á milli hópa og það er ólíkt á milli hópa hvernig þeir munu kjósa,“ segir hann.

Morðið á Jo Cox, þingmanni Verkamannaflokks Bretlands, á fimmtudag virðist frekar hafa styrkt baráttu þeirra sem vilja vera áfram í Evrópusambandinu að sögn Baldurs. „Það að ódæðismaðurinn virðist hafa hrópað þjóðernisslagorð sem tengist öfgahreyfingum sem hafa stutt úrsögn úr ESB virðist hafa skaðað baráttu þeirra sem vilja úr sambandinu,“ segir Baldur.

Hann vísar þó aftur til atkvæðagreiðslunnar í Skotlandi þar sem stefnubreyting átti sér stað í aðdraganda kosninganna og því sé í raun ekki hægt að fullyrða um hversu stóran hluta breytinganna í skoðanakönnunum megi rekja til morðsins á Cox. „En morðið dró úr hita umræðunnar, yfirlýsingagleðinni og fullyrðingum á báða bóga,“ segir Baldur.

Úrsögn gæti styrkt efnahagslega stöðu Írlands verulega

Beðinn um að meta áhrifin á Bretland og Evrópusambandið ákveði Bretar að segja sig úr sambandinu eftir atkvæðagreiðsluna segir Baldur að til að byrja með lendi Bretar í efnahagslegum erfiðleikum. „Það er mjög líklegt að pundið muni falla og mörg alþjóðleg fyrirtæki í Bretlandi hugsa sér til hreyfings,“ segir Baldur. „Það gæti sett Írland í sterka stöðu,“ bætir hann við en Írland er bæði innan Evrópusambandsins og með evru.

„Cameron bíður þá erfitt verkefni að leiða úrsögnina því Bretar verða að ná góðum viðskiptasamningi við Evrópusambandið til að tryggja útflutning úr landinu. Það verður ekki hlaupið að því,“ segir Baldur og bætir við að hann efist um að Bretar vilji nokkuð hafa með Evrópska efnahagssvæðið að gera.

David Cameron í dag á kosningafundi „Remain“-fylkingarinnar í Bretlandi sem ...
David Cameron í dag á kosningafundi „Remain“-fylkingarinnar í Bretlandi sem berst fyrir áframhaldandi aðild Bretlands að Evrópusambandinu. AFP

„Þeir sem vilja segja skilið við sambandið hafa allt á hornum sér varðandi löggjöfina sem kemur frá Brussel og segja breska kjósendur hafa lítið um hana að segja. Utan Evrópusambandsins hafa þeir ekkert um það að segja,“ segir Baldur. Ráðgerir hann því að Bretar leitist eftir því að gera viðskipta- eða fríverslunarsamning við Evrópusambandið en góður samningur við Bretland mun mæta mikilli andstöðu innan ESB, m.a. því slíkur samningur væri fordæmisgefandi fyrir önnur ríki sem gætu þá fylgt á eftir Bretum úr sambandinu.

Baldur bendir á að „tímamótasamningar“ ríkisstjórnar Camerons við Evrópusambandið í vor hafi í raun ekki verið neinir tímamótasamningar þó svo að stór orð hafi verið látin falla um samningana í fjölmiðlum um allan heim.„Bretar fengu engar almennilegar varanlegar undanþágur frá regluverki ESB í þessum samningum. Það leggur svolítið línurnar hvað Evrópusambandið væri lítið til í að gefa eftir ef Bretar segja skilið við sambandið,“ segir Baldur.

„Ég sé fram á mjög erfiðar samningaviðræður á milli Evrópusambandsins og Bretlands,“ heldur hann áfram en tekur þó fram að Evrópusambandið þurfi einnig á viðskiptasamningi að halda við Bretland út af sínum eigin efnahagsmálum.

Utan ESB munu Bretar reyna að styrkja Atlantshafsbandalagið

Baldur víkur máli sínu að framtíðarskipan í Evrópu og áhrifum Breta þar á, utan Evrópusambandsins. „Bresk stjórnvöld hafa alltaf viljað hafa efnahagsleg, pólitísk og menningarleg áhrif á Evrópu. Ef þeir segja skilið við Evrópusambandið verður miklu erfiðara fyrir þá að hafa áhrif á slík mál í álfunni. Ég tel líklegt að þeir muni efla NATO þannig að sem mest af öryggis- og varnarmálum í Evrópu yrðu á dagskrá NATO en ekki sameiginlegrar varnarstefnu Evrópusambandsins. Það verður þungur róður líka,“ segir Baldur.

Hann segir það verða mikið áfall fyrir Evrópusamruna, þá hugmynd að Evrópa eigi að vera sameinuð, og grundvallargildin sem sambandið byggir á ákveði Bretar að segja sig úr sambandinu. „Það yrði mikið áfall fyrir þessa hugsjón,“ segir Baldur. „Það er mjög líklegt að úrsögn muni leiða til umræðu í flestum löndum Evrópusambandsins um hugsanlega úrsögn, sérstaklega í Danmörku, Hollandi og Svíþjóð,“ segir Baldur. „En ég hugsa að stjórnmálamenn muni halda að sér höndum, bíða og sjá hvers konar samningi Bretar ná við Evrópusambandið utan þess.“

Á sama tíma hafa Bretar verið mjög erfiðir þegar kemur að því að fá ríki Evrópusambandsins til þess að vinna nánar saman að sögn Baldurs og því ekki ólíklegt að við úrsögn verði auðveldara fyrir ríkin sem eftir verða að vinna nánar saman. „Til skamms tíma verður þetta vesen en það er ekki víst að áhrifin verði slík til langs tíma. Þó að við vitum það ekki,“ segir Baldur.

Hagsmunir Bretlands felast í góðum samningi við ESB, ekki smáríki

Spurður hvort samningsstaða Íslands við gerð viðskipta- eða fríverslunarsamninga við Evrópusambandið kunni að styrkjast við úrsögn Breta úr Evrópusambandinu segir Baldur það frekar langsótt. Bretar þurfi þá annaðhvort að ganga inn í EFTA og EES sem hann telur ólíklegt á sama tíma og EES-samningurinn sé efnahagslega hagstæður fyrir smærri ríki á borð við Ísland, Noreg og Liechtenstein.

Wikipedia

„Þessi ríki yrðu treg til að hafna EES fyrir samstöðu með Bretum. Svo þarf Bretland miklu meira á góðum samningi að halda við Evrópusambandið en EFTA-ríkin,“ segir Baldur.

Hann segir engar breytingar verða yfir nóttu heldur færu Bretar úr sambandinu þegar drög væru komin að viðskiptum milli Evrópusambandsins og Bretlands. „Við þyrftum að fylgjast náið með þeirri þróun og halda mjög vel á okkar spilum. En vegna þess sem ég segi áður, þá liggja hagsmunir Breta í að ná samningum við alla hina frekar en okkur þó svo að það séu miklir hagsmunir Íslands á Bretlandseyjum.“

Baldur segir þó augljóst að komi til úrsagnar Breta muni róðurinn þyngjast verulega fyrir þá sem tala fyrir inngöngu Íslands og Noregs í Evrópusambandið.

Íhaldsflokkurinn stendur eftir laskaður sama hver úrslitin verða

Sama hver niðurstaða kosninganna verður stendur Íhaldsflokkurinn eftir verulega laskaður að sögn Baldurs. „Það standa öll spjót á Íhaldsflokknum því þeir eru við stjórnvölinn,“ segir hann. „Ef Bretland segir skilið við Evrópusambandið og Cameron tapar, þá er hann í mjög erfiðri stöðu. Þó að hann segist ekki ætla að segja af sér og hafi ekki lagt höfuðið að veði verður hann mjög valtur í sessi. Dagar hans gætu verið taldir,“ segir Baldur.

„Þó að stjórnarandstöðuflokkarnir tali fyrir áframhaldandi veru þá gefur tap í þjóðaratkvæðagreiðslunni þeim höggstað á Cameron. Þeir gætu allir krafist afsagnar hans daginn eftir, kennt honum um niðurstöðuna þó að hún yrði sjálfum þeim að hluta til að kenna,“ segir Baldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Hvernig líst þér á Natalie
Vissir þú að nú er 40.000 kr afsláttur af Natalie? Klikkaðu á linkinn fyrir neð...
Jema A/S danskar skæralyftur
Við seljum hinar vinsælu skæralyftur frá JEMA . Lyfta 1,2 m og 3 T ,glussadrifn...
Flottur Hyundai Tucson Comfort 2018
Hyundai Tucson Comfort 2,0 dísel 4x4 ekinn aðeins 11 þ. Km. Hiti í stýri, afteng...
Fyrir verslunarmannahelgina !!!
Til sölu 2ja manna tjald. Verð kr 4000. 4 manna tjald Verð kr 10000. Samanbrjót...