„Í guðs bænum, farðu!“

David Cameron í breska þinginu í dag.
David Cameron í breska þinginu í dag. AFP

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði Jeremy Corbyn að segja af sér sem leiðtogi breska Verkamannaflokksins á breska þinginu í Westminster í dag. Það væri ekki þjóðinni í hag að hann héldi áfram.

Í fjörugum fyrirspurnatíma í þinginu í hádeginu gagnrýndi forsætisráðherrann harðlega framgöngu Corbyn í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Sagði hann Corbyn hafa staðið sig illa og ekki tekist að sannfæra kjósendur sína um að greiða atkvæði með áframhaldandi aðild. „Í guðs bænum, farðu!“ hrópaði Cameron og tóku flestir í þingsalnum undir, þar á meðal þingmenn Verkamannaflokksins.

Yfir 80% þingmanna flokksins samþykktu í atkvæðagreiðslu í gær að lýsa yfir vantrausti á Corbyn. Hann hefur hins vegar sagst ekki ætla að stíga til hliðar. Hann sé lýðræðislega kjörinn formaður flokksins og atkvæðagreiðslan í gær hafi ekki verið bindandi. Með því að segja af sér væri hann að svíkja þá flokksmenn sem hefðu kosið hann.

Cameron og Corbyn börðust báðir fyrir áframhaldandi aðild Breta að Evrópusambandinu. Cameron tilkynnti strax þegar úrslitin lágu fyrir að hann hygðist stíga til hliðar sem forsætisráðherra, í síðasta lagi í október.

Bandamenn Corbyns hafa bent andstæðingum hans á að boða til formlegs formannskjörs, vilji þeir skora Corbyn á hólm.

Ed Miliband, fyrrum formaður Verkamannaflokksins, er einn þeirra sem hefur hvatt Corbyn til að segja af sér. Í samtali við BBC Radio 4 í morgun sagði hann stöðu Corbyns vera óverjandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina