Níu Ítalir myrtir í Dhaka

Staðfest er að níu Ítalir, sjö Japanir, Bandaríkjamaður og Indverji hafi verið drepnir í árás vígamanna hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams á kaffihús í miðbæ Dhaka, höfuðborgar Bangladess, í gærkvöldi.

Alls féllu tuttugu manns í árásinni.

Byssumenn réðust inn á kaffihúsið Holey Artisan Bakery seint í gærkvöldi og tóku þar gísla. Gíslatökunni lauk ekki fyrr en tólf klukkutímum síðar þegar hermenn réðust inn á staðinn.

Sex vígamenn voru myrtir og einn handtekinn, að sögn yfirvalda. Sheikh Hasina, forsætisráðherra Bangladess, lýsti í morgun yfir tveggja daga þjóðarsorg í landinu.

„Við fund­um tuttugu lík. Flest­ir höfðu verið grimmi­lega brytjaðir til dauða með eggvopn­um,“ sagði talsmaður hers­ins

Paolo Gentiloni, utanríkisráðherra Ítalíu, sagði að eins Ítala væri auk þess saknað. Margir Ítalir starfa í landinu.

Japönsk yfirvöld sögðu að einn Japani hefði verið á meðal þeirra þrettán gísla sem var bjargað. Japanirnir sjö sem féllu í árásinni voru ráðgjafar á vegum japönsku utanríkisþjónustunnar.

Bandaríska utanríkisráðunneytið staðfesti í dag að einn Bandaríkjamaður hefði látið lífið í árásinni. Hvíta húsið fordæmdi árásina harðlega. „Við erum í sambandi við yfirvöld í Bangladess og höfum boðið alla nauðsynlega aðstoð,“ sagði talsmaður Hvíta hússins.

Frétt mbl.is: Skildu að útlendinga og heimamenn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert