Berlusconi útskrifaður af sjúkrahúsi

Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu.
Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi í Mílanó eftir að hafa gengist undir hjartaaðgerð.

Þrjár vikur eru liðnar síðan hann gekkst undir aðgerðina og lofar hann því að snúa aftur í stjórnmálin þegar hann verður búinn að jafna sig.

„Ég þarf að fara í tveggja mánaða endurhæfingu og eftir það get ég þjónað Ítalíu og ítölskum almenningi,“ sagði Berlusconi, sem er 79 ára, fyrir utan San Raffaele-sjúkrahúsið.

San Raffaele-sjúkrahúsið þar sem Berlusconi gekkst undir aðgerðina.
San Raffaele-sjúkrahúsið þar sem Berlusconi gekkst undir aðgerðina. AFP

Hann mun safna kröftum á heimili sínu í Arcore, skammt frá Mílanó, með aðstoð lækna frá San Raffaele.

Hjartaaðgerðin stóð yfir í fjórar klukkustundir. Alberto Zangrilla, læknir Berlusconis, segir að hann hafi verið í lífshættu áður en hann var lagður inn og vitað það best sjálfur.

Að sögn Zangrilla var fjölmiðlamógúllinn Berlusconi, sem er þekktur fyrir kvensemi sína, „strax byrjaður að grínast“ um að einn hjúkrunarfræðinganna sem annaðist hann á næturnar hefði líkama sem væri skapaður fyrir sjónvarp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert