1.200 konur áreittar á nýársnótt

Frá Köln.
Frá Köln. AFP

Talið er að gerendurnir í kynferðisbrotamálunum sem upp komu í Þýskalandi á nýársnótt 2016 séu um tvö þúsund talsins. Frá þessu greindi þýska blaðið Süddeutsche Zeitung í kjölfar þess að alríkislögregla Þýskalands (BKA) birti niðurstöður skýrslu sinnar um ofbeldisglæpina á áramótunum. DW greinir frá.

Í skýrslunni kemur fram að um 1.200 konur hafi verið beittar kynferðisofbeldi í 900 kynferðismálum sem komu upp umrædda nótt. Í mörgum málanna hafi árásirnar verið framkvæmdar af fjölmennum hópum sem skýrir hvers vegna fjöldi fórnarlamba og gerenda er meiri en fjöldi tilfella.

Holger Münch, yfirmaður þýsku alríkislögreglunnar, sagði í samtali við fjölmiðla að tenging væri á milli kynferðisofbeldisins og flóttamannastraumsins til Þýskalands á síðasta ári. Flestir gerendanna komu frá Norður-Afríku, að því er fram kom í skýrslu BKA.

Aðeins hefur tekist að bera kennsl á 120 gerendur af þeim tvö þúsund sem talið er að hafi tekið þátt í kynferðisofbeldinu og sagði Münch að því miður yrði að gera ráð fyrir því að stór hluti gerenda mundi aldrei finnast. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert