Fjörutíu handteknir í París

Táragasi var beitt á hóp manna við Eiffel-turninn í gær.
Táragasi var beitt á hóp manna við Eiffel-turninn í gær. AFP

Lögreglan handtók um fjörutíu manns í París í gær meðan á úrslitaleik Portúgala og Frakka stóð. Lögreglan þurfti að beita táragasi og vatni á hóp manna sem lét illa og kastaði m.a. glerflöskum að lögreglumönnum við Eiffel-turninn.

Hópur fótboltaáhugamanna safnaðist saman við Eiffel-turninn fyrir leikinn. Í hópnum voru bæði stuðningsmenn Frakka og Portúgala. Hópurinn hafði ekki fengið aðgang að aðdáendasvæðum landa sinna þar sem þau voru orðin full, að sögn lögreglunnar í París. 

Einnig var fólk handtekið fyrir utan leikvanginn, Stade de France, meðan á leiknum stóð. 

Svæðið við Eiffel-turninn var því baðað táragasi í gær er óeirðalögreglan reyndi að hafa hemil á mannskapnum sem hafði m.a. kveikt elda á gangstéttum og kastað hlutum að lögreglunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert