Flytja erlenda ríkisborgara frá Suður-Súdan

Fjölskyldur hafa leitað skjóls í kirkjum og á öðrum stöðum …
Fjölskyldur hafa leitað skjóls í kirkjum og á öðrum stöðum í nágrenni höfuðborgarinnar Juba. AFP

Þýsk stjórnvöld segja að nú sé unnið að því að koma öllum Þjóðverjum og öðrum erlendum ríkisborgurum frá Suður-Súdan eftir að átök blossuðu upp af krafti í landinu á föstudag. Talið er að mörg hundruð manns hafi þegar fallið í bardögum og tugþúsundir hafa flúið heimili sín.

Erlendir ríkisborgarar verða fluttir frá landinu með flugvélum þýska flughersins. 

Heimamenn njóta ekki slíkrar þjónustu. Þeir hafa flúið, margir hverjir fótgangandi, frá höfuðborginni Juba þar sem átökin eru hvað hörðust.

Fréttaskýring mbl.is: Örvæntingarfullur flótti af vígakri

Vopnahléi var komið á í gær og er talið að það haldi enn. Upplýsingar frá landinu eru hins vegar litlar og því ríkir mikil óvissa um ástandið.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, hvatti nágrannalönd Suður-Súdans í gær til að opna landamæri sín fyrir flóttafólki. Stríður straumur flóttamanna hefur verið til Úganda síðustu mánuði en að undanförnu hafa fáir skilað sér yfir landamærin. Skýringin felst í því að hermenn og uppreisnarmenn í Suður-Súdan hafa lokað landamærunum sín megin.

Að minnsta kosti tveir friðargæsluliðar á vegum Sameinuðu þjóðanna létust í átökum í landinu um helgina. 

Upp úr sauð milli stuðningsmanna varaforsetans og forsetans á föstudag en um helgina átti að fagna því að fimm ár eru síðan Suður-Súdan fékk sjálfstæði frá Súdan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert