Rússar reiðir hugsanlegum ólympíufara

Darya Klishina.
Darya Klishina. AFP

Rússneski langstökkvarinn Darya Klishina hefur verið harðlega gagnrýnd í heimalandinu eftir að hún sótti um að fá að keppa á Ólympíuleikunum í Ríó undir hlutlausum fána.

136 rússneskir íþróttamenn hafa sótt um undanþágu hjá Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu til að keppa á leikunum, en íþróttasambandi Rússlands hefur verið meinað að taka þátt í alþjóðlegum keppnum eftir að upp komst um lyfjamisnotkun innan þess. Ólympíusamband Rússlands hefur áfrýjað banninu og búist er við að úrskurður liggi fyrir 21. júlí.

Málið hefur vakið hörð viðbrögð í Rússlandi, þar sem Klishina hefur verið kölluð svikari á samskiptamiðlum. Hefur hún verið gagnrýnd fyrir að styðja ekki við bakið á öðrum rússneskum íþróttamönnum og blaðamaður líkti henni við sovéska bandamenn nasista. The Guardian greinir frá þessu.

Fyrr í mánuðinum fékk rússneska hlaupakonan Yuliya Stepanova leyfi Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins til að keppa undir hlutlausum fána á leikunum, en hún átti stóran þátt í að koma upp um lyfjamisnotkun rússneskra íþróttamanna. Hún bíður þó enn svars frá Alþjóðaólympíunefndinni.

Fari svo að rússneskir íþróttamenn keppi ekki undir fána Rússlands á leikunum verður það í fjórða sinn sem hlutlausir íþróttamenn taka þátt á Ólympíuleikum. Í Lundúnum 2012 keppti einn Suður-Súdani og þrír frá Hollensku-Antillaeyjum ekki undir neinum fána. Á leikunum í Sydney 2000 kepptu fjórir íþróttamenn frá Austur-Tímor sem hlutlausir íþróttamenn og í Barselóna 1992 gerðu íþróttamenn frá Júgóslavíu hið sama.

mbl.is

Bloggað um fréttina