Ganga dögum saman án matar og vatns

Börn og konur eru í miklum meirihluta þeirra sem flýja …
Börn og konur eru í miklum meirihluta þeirra sem flýja Suður-Súdan. Skýringin er einföld. Karlmennirnir eru margir hverjir dánir eða hafa verið þvingaðir til að taka þátt í hernaði. Ljósmynd/UNICEF

Meira en fimm þúsund manns hafa flúið frá Suður-Súdan til nágrannalandsins Úganda frá því að átök blossuðu þar upp að nýju í síðustu viku. Í Úganda eru fyrir um 208 þúsund Suður-Súdanar á flótta og um hálf milljón flóttamanna í heildina. 

Talið er að um 90% þeirra sem hafa komið yfir landamærin síðustu daga séu konur og börn, samkvæmt upplýsingum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. 

Fólkið er hungrað og þreytt er það kemur í flóttamannabúðirnar. Margir hafa gengið dögum saman með eigur sínar og börn á bakinu. Aðrir eru vannærðir enda hvorki hægt að komast í mat né vatn á leiðinni. 

Flestir þeirra sem nú eru á flótta frá Suður-Súdan koma frá Austur-Equatoria og höfuðborginni Juba. 

Vopnahlé er í gildi í landinu en það er mjög brothætt. Um þarsíðustu helgi brutust út blóðugir bardagar, sömu helgi og fagna átti fimm ára afmæli stofnunar Suður-Súdan sem er yngsta ríki heims. Átökin eru á milli stuðningsmanna Salva Kiir forseta og Riek Machar varaforseta. 

Frétt mbl.is: Örvæntingarfullur flótti af vígakri

Hundruð féllu í átökunum og þúsundir eru á flótta. Flóttamannastofnun á því von á mun fleiri flóttamönnum til Úganda. Hún segir að mikill fjöldi sé á flótta innan Suður-Súdan og þar sem ástandið þar sé hættulegt sé víst að flestir leiti skjóls í nágrannaríkjunum. 

Það hefur þó ekki gengið áfallalaust fyrir sig að komast út úr landinu. Mannréttindasamtökin Amnesty International telja sig hafa heimildir fyrir því að öryggissveitir suðursúdanska hersins standi vörð um landamærin og hindri fólk í að fara. 

Á síðustu dögum hefur herinn hins vegar slakað á þessum ráðstöfunum og hleypt fólki til Úganda. 

Í gær samþykktu leiðtogar Afríkuríkja að senda friðargæslulið til Suður-Súdan og styrkja þar með friðargæslu Sameinuðu þjóðanna í landinu.

Suður-Súdan var stofnað árið 2011 með klofningi frá Súdan. Tveimur árum síðar braust út blóðug borgarastyrjöld sem varð til þess að tugþúsundir lögðu á flótta, flestir til Úganda. 

Þúsundir hafa gengið dögum saman til að komast út af …
Þúsundir hafa gengið dögum saman til að komast út af hættusvæði og til nágrannlandsins Úganda. Ljósmynd/UNICEF

Úgandabúar taka vel á móti flóttafólkinu þó að innviðir landsins séu veikir. Flóttamennirnir fá úthlutað landsskikum í sérstökum flóttamannabyggðum og eru aðstoðaðir við að koma undir sig fótunum. Þá hafa fjölmargir skólar verið reistir sem nýtast bæði flóttamönnum og heimamönnum.

En Úganda er fátækt ríki og fyrirsjáanlegt að í óefni stefni ef flóttamannastraumurinn heldur áfram næstu mánuði með sama þunga og síðustu daga. Það virðist þó óhjákvæmilegt að mati Flóttamannastofnunarinnar.

Mbl.is heimsótti flóttamannabúðir fyrir Suður-Súdana í Úganda fyrr á árinu. Hér má lesa frásögn af þeirri ferð.

Mbl.is heimsótti flóttamannabúðir í Úganda nýverið þar sem flóttafólk frá …
Mbl.is heimsótti flóttamannabúðir í Úganda nýverið þar sem flóttafólk frá Suður-Súdan hefst við áður en það fær úthlutað landskika til að hefja nýtt líf. mbl.is/Kristín Heiða
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert