Hló eftir leik Íslands og var kýld

Hannes Þór Halldórsson með boltann í höndunum en Harry Kane …
Hannes Þór Halldórsson með boltann í höndunum en Harry Kane fórnar höndum. Ísland vann England, 2:1, í 16-liða úrslitum á EM. mbl.is/Skapti

Bresk kona á þrítugsaldri var kýld í andlitið eftir leik Íslands og Englands á Evrópumótinu í knattspyrnu en fyrir dómi kom fram að hún hefði hlegið að Englendingum eftir leikinn með þeim afleiðingum að vinur hennar gaf henni einn á kjammann.

Cambrian News greinir frá en atvikið kom í ljós þegar réttað var yfir hinni 28 ára Claire Thomas, sem var kýld, á miðvikudag. Hún var ákærð fyrir að ráðast á tvo lögregluþjóna og veita mótspyrnu við handtöku.

Málsatvik voru þau að Claire var drukkin eftir að hafa horft á knattspyrnuleikinn í heimahúsi í Aberaeron. Eftir að Englendingar töpuðu leiknum 2-1 skellti hún upp úr með þeim afleiðingum að vinur hennar kýldi hana og sprengdi á henni vörina. Hún tilkynnti ekki málið til lögreglu og yfirgaf húsið.

Eftir að Claire yfirgaf húsið hringdi vinur hennar í lögreglu og tilkynnti að ráðist hefði verið á hann. Fór lögregla þá á vettvang og fundu lögregluþjónar Claire drukkna skammt frá húsinu. Kom það fram fyrir dómi að hún hefði staulast á hækjum sem hún hefur þurft að nota síðan í apríl eftir að hafa lent í slysi.

Claire var í miklu uppnámi þegar lögregluþjónarnir nálguðust hana og réðst hún á lögregluþjónana tvo. Hún sló til þeirra með hækjunum, fleygði farsíma sínum, hrækti á þá og klóraði annan lögregluþjóninn til blóðs.

Fyrir dómi sagði verjandi Claire hana skiljanlega hafa verið í miklu uppnámi eftir að hafa fengið hnefahögg í andlitið í heimahúsinu. Hún hafði hlotið skilorðsbundinn dóm sex dögum áður og biðlaði verjandinn til dómsins að ekki yrði litið til fyrri dóms og hún dæmd fyrri að hafa rofið skilorð.

Ákvörðun refsingar var frestað þar til að skýrsla um skilorðsbundnu refsingu hennar berst dómara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert