„Ég bjargaði þeim“

Satoshi Uematsu brosti að myndavélum fjölmiðla í morgun.
Satoshi Uematsu brosti að myndavélum fjölmiðla í morgun. AFP

Japanskur maður, sem hefur játað að hafa myrt 19 manns á heimili fyrir andlega veika, brosti að myndavélum fjölmiðla í morgun áður en hann var yfirheyrður vegna glæpa sinna.

Lögregla gerði húsleit á heimili hins 26 ára gamla Satoshi Uematsu, sem á að hafa sagst vilja að fatlað fólk „myndi hverfa“. Hann réðst inn á heimilið, vopnaður hnífi, og stakk flest fórnarlömb sín í hálsinn.

Með bláan jakka fyrir andlitinu var Uematsu fylgt út úr lögreglustöðinni og inn í bíl. Þar biðu hans myndavélar fjölmiðla. Þegar hann settist inn í bílinn fjarlægði hann jakkann og brosti breitt til fréttamanna.

Uematsu hafði sent stjórnmálamönnum bréf í febrúar þar sem hann hótaði árásum á fatlaða í landinu.

Japanskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Uematsu hafi sagt lögreglu að hann vildi biðja fjölskyldur fórnarlambanna afsökunar. Þrátt fyrir það sér hann ekki eftir gjörðum sínum.

„Ég bjargaði þeim sem eru alvarlega fatlaðir,“ sagði hann við lögreglu.

Uematsu braust inn á heimilið aðfaranótt þriðjudags, batt saman tvo starfsmenn og hóf síðan að drepa vistmennina. Hann notaði alls fimm hnífa til þess að særa 26 manns, þar af 13 alvarlega. Hann hins vegar náði að drepa 19.

Skömmu síðar ók hann bifreið sinni að lögreglustöð í nágrenninu, með blóðugu hnífana með sér. Sagði hann einfaldlega „Ég gerði það,“ við lögreglumennina.  

Uematsu hafði starfað á heimilinu en var vikið úr starfi og lagður inn á sjúkrahús gegn vilja sínum eftir að hann sagði starfsmönnum að hann ætlaði að drepa fatlað fólk.

Hann fékk þó að fara heim 12 dögum síðar eftir að læknir úrskurðaði að hann væri ekki hættulegur.

Fyrri frétt mbl.is: Vildi að stjórnvöld útrýmdu fötluðum

Lögregla gerði húsleit á heimili morðingjans.
Lögregla gerði húsleit á heimili morðingjans. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert