Telja leitina á röngum stað

Þota Malaysia Airlines hvarf sporlaust í mars 2014 með 239 …
Þota Malaysia Airlines hvarf sporlaust í mars 2014 með 239 manns innanborðs. AFP

Brak farþegaþotu Mailaysa Airlines, MH370, sem hvarf sporlaust í mars 2014, gæti verið allt að 500 kílómetrum norðan við svæðið sem leitað er á, segja ítalskir vísindamenn. BBC greinir frá þessu, en vísindamennirnir hafa birt niðurstöður sínar í tímaritinu Natual Hazards and Earth System Sciences.

Rannsóknarhópur Euro-Mediterranean Center on Climate Change (CMCC) á Ítalíu byggir niðurstöður sínar á útreikningum á straumum og vindum á hafsvæðinu þar sem þotan hvarf, auk staðsetninga braks úr þotunni sem skolað hefur á land. Telja vísindamennirnir reikninga sína gefa upp líklegasta brotlendingarstað vélarinnar og hvar braki úr vélinni muni líklega skola á land í framtíðinni.

Samkvæmt útreikningum þeirra er stærstur hluti braksins á stórleitarsvæðinu, en einungis er leitað með neðansjávarmyndavélum og skynjurum á hluta þess svæðis. Norðan leitarsvæðisins sem lögð er áhersla á sé stórt ókannað svæði og telja vísindamennirnir líklegt að þar megi finna þotuna, allt að 500 kílómetrum norðar.

Útreikningarnir byggjast á líkani sem sýnir hvar braki myndi líklega skola á land, eftir því hvar þotan fórst. Eric Jansen, sem fer fyrir rannsóknarhóp CMCC, segir stærsta kostinn við aðferðina vera að eftir því sem meira brak finnst, því nákvæmar sé hægt að staðsetja líklegasta brotlendingarstaðinn. Þær staðsetningar sem best hafa passað við fundarstaði braks eru taldar líklegastar, en þær sem passa síður ólíklegri. Finnist nýtt brak þurfi einungis að færa það inn í líkanið og sjá þá hvort líklegasta staðsetning breytist.

Því eigi heldur að leggja áherslu á að finna brak sem skolað hefur á land en að þræða eftir hafsbotni. Leit að braki sé mun kostnaðarminni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert