Múslimar sóttu kaþólskar messur

Dominique Lebrun erkibiskup leiðir guðsþjónustu í Saint-Etienne-du-Rouvray í dag.
Dominique Lebrun erkibiskup leiðir guðsþjónustu í Saint-Etienne-du-Rouvray í dag. AFP

Múslimar víða í Frakklandi mættu í kaþólskar messur í dag, til að sýna samstöðu eftir að tveir ungir menn tóku kirkjugesti í gíslingu og myrtu prest, Jacques Hamel, í nágrenni Rúðuborgar í vikunni. Höfðu mennirnir svarið Ríki íslams hollustu sína. BBC greinir frá þessu.

Múslimaráð Frakklands, CFCM, hefur hvatt múslima til að sýna samstöðu og samúð í kjölfar morðsins. „Við erum allir kaþólikkar Frakklands,“ sagði Anouar Kbibech, forstöðumaður ráðsins.

Dominique Lebrun, erkibiskup Rúðuborgar, sagði menn snortna yfir uppátækinu. „Þetta er mikilvæg tjáning bróðernis. Þeir hafa sagt okkur, og ég held að þeir meini það í einlægni, að það var ekki íslam sem drap Jacques Hamel.“

Forstöðumaður moskunnar í Saint-Etienne-du-Rouvray, þar sem Hamel var myrtur, segir mikilvægt að sýna samstöðu í verki. Þannig megi sýna að samfélög kristinna og múslima standi saman.

Í gær komu um 50 múslimar saman, ásamt 350 kaþólikum, á vöku í kirkju í Saint-Etienne-du-Rouvray. Þá hafa múslimar á Ítalíu einnig mætt til guðsþjónustu í dag og sátu þrír ímamar á fremsta bekk í Santa Maria-kirkjunni í Trastevere í Róm í dag.

„Moskur eru ekki staðir þar sem ofstækismenn verða róttækir,“ sagði Mohammed ben Mohammed frá sambandi íslamskra samfélaga á Ítalíu. „Moskur gera andstæðuna við hryðjuverk: þær breiða út frið og samræðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert