14 zika-smit í Flórída

AFP

Yfirvöld í Flórída hafa óskað eftir neyðaraðstoð frá bandarískum yfirvöldum vegna zika-veirunnar en talið er að fjórtán manns hafi smitast af veirunni í ríkinu. Smitleiðin er með moskítóflugum og hafa allir smitast í Miami og nágrenni.

Ríkisstjóri Flórída, Rick Scott, greindi frá því í dag að tíu smit hefðu greinst en á föstudag tilkynntu heilbrigðisyfirvöld í ríkinu fjögur smit. Þetta er í fyrsta skipti sem zika-veiran, sem getur valdið fæðingargöllum og er talin sérstaklega hættuleg þunguðum konum, smitast með moskítóflugum innan Bandaríkjanna. 

Yfir 1.600 tilvik zika-smits hafa áður verið tilkynnt í Bandaríkjunum en í flestum tilvikum er þar um að ræða smit meðal fólks sem hefur ferðast til annarra landa. Eins er vitað að veiran geti smitast við kynmök.

Fastlega er gert ráð fyrir því að Smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna (Center for Disease Control, CDC) muni gefa út viðvörun til þungaðra kvenna eða þeirra kvenna sem hugleiða barneignir um að forðast óþarfa ferðalög til svæða þar sem veiran hefur greinst. Að sögn Scotts hefur fólkið smitast á svæði skammt norður af miðborg Miami, Wynwood, sem er afar vinsæll áfangastaður ferðamanna sem og heimafólks en þar eru rekin fjölmörg myndlistargallerí og veitingastaðir.

Af þeim fjórtán sem eru smitaðir eru tvær konur. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert