Ófrískar konur varaðar við Miami-ferðum

Zika-veiran smitast með biti moskítóflugna.
Zika-veiran smitast með biti moskítóflugna. AFP

Ófrískum konum er ráðlagt að ferðast ekki til Miami á Flórída, eftir að tíu ný tilfelli zika-veirunnar voru greind. Talið er að sýkinguna megi rekja til moskítóflugna á Flórída.

Rick Scott, ríkisstjóri Flórída, hefur óskað eftir óskað eft­ir neyðaraðstoð frá banda­rísk­um yf­ir­völd­um þannig að koma megi í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Zika-veiran, sem smitast með moskítóflugum, er talin geta valdið fósturskaða, svonefndum smáheila.

Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi sendu um helgina frá sér viðvörun þar sem þau mæla með því að ófrískar konur fresti ferðalögum til Flórída. Þegar aðvörunin var send út höfðu eingöngu fjögur tilfelli greinst, en í dag var tilkynnt um 10 tilfelli til viðbótar.

Þessi fjórtán síðustu tilfelli eru talin tilkomin af því að hinir smituðu hafi verið bitnir af moskítóflugum sem áður höfðu bitið einstaklinga sem smitast höfðu af veirunni á ferðalögum sínum um Suður-Ameríku.

Fréttavefur BBC hefur eftir Scott að nýjustu aðvaranir yfirvalda mæli með því að þær konur sem þegar eru ófrískar, eða eru að reyna að verða ófrískar, haldi sig fjarri 1,6 ferkílómetra svæði norður af miðbæ Miami.

Svæðið sem um ræðir liggur úr vestri af NW 5th Avenue austur til US 1 og NW/NE 38th og mælir farsóttastofnun (CDN) með því að þær konur sem hafa verið á svæðinu frá 15. júní og séu á fyrstu stigum meðgöngu láti kanna hvort þær beri veiruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert