Var MH370 viljandi brotlent?

AFP

Kanadískur sérfræðingur telur að malasísku farþegaþotunni MH370 hafi viljandi verið brotlent á sjónum.

Larry Vance, sem komið hefur að rannsókn yfir 200 flugslysa, sagði í samtali við ástralska sjónvarpsþáttinn 60 Minutes að skemmdir á hluta af væng, sem fannst á síðasta ári við eyjuna Reunion við austurströnd Afríku og talinn er hafa tilheyrt þotunni, bendi til þess að henni hafi verið stýrt áður en hún hrapaði í hafið í mars 2014 með þeim afleiðingum að 239 létust.

Haft er eftir Vance á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að þessar skemmdir væru ekki til staðar nema einhver hefði tekið meðvitaða ákvörðun um að brotlenda farþegaþotunni. 

„Einhver var við stjórnvölinn á flugvélinni áður en hún brotlenti. Einhver brotlenti henni í sjónum, það er enginn önnur kenning sem hægt er að fylgja,“ segir hann.

Myndir af vænghlutanum sýna að sögn Vance ð flapar hafi verið stilltir fyrir lendingu. Það væri ekki hægt nema einhver stillti þá þannig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert