Þúsundir minntust franska prestsins

Þúsund minntust Jacques Hamel, prestsins sem myrtur var í kirkju í síðustu viku, þegar hann var borinn til grafar í Rúðuborg í dag. Múslimar og gyðingar voru meðal þeirra sem sóttu athöfnina, til að sýna samstöðu.

Erkibiskup Rúðuborgar, Dominique Lebrun, leiddi minningarathöfn fyrir almenning, áður en Jacques Hamel var jarðsunginn. Innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, var meðal þeirra sem sóttu athöfnina.

Systir Jacques, Roselyne, ávarpaði söfnuðinn og sagði bróður sinn hafa verið mann miskunnar og ástar. Nefndi hún þegar hann neitaði yfirmannsstöðu þegar hann gegndi herþjónustu í Alsír, þar sem hann vildi ekki þurfa að gefa skipanir sem leiddu til mannfalls.

„Hann kaus að þjóna guði, svo hann gæti ræktað ást og umburðarlyndi fólks af öllum trúarbrögðum og trúfélögum, þeim sem trúðu og þeim trúlausu, í gegnum líf sitt.“

Í predikun sinni sagði Lebrun erkibiskup: „Eins fólskulegur og óréttlátur og hræðilegur dauði Jacques var, verðum við að líta djúpt í hjörtu okkar til að sjá ljósið.“ Kallaði hann eftir fyrirgefningu og vitnaði í Markúsarguðspjall: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.

Frá útför Jacques Hamel í dag.
Frá útför Jacques Hamel í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert