Flutt nauðug á eyjuna og brotið á þeim

Eyjan Nauru.
Eyjan Nauru. Ljósmynd/Wikipedia

Börn verða fyrir einelti og þora ekki í skólann. Konur fara ekki út að kvöldlagi nema í fylgd karla og einhverjar hafa sætt kynferðislegu ofbeldi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtölum mannréttindasamtaka við flóttafólk sem er haldið af áströlskum yfirvöldum á eyjunni Nauru.

Rúmlega 1.200 hælisleitendur í Ástralíu hafa verið fluttir nauðugir til Nauru, afskekktrar eyju í Kyrrahafinu. Þar sæta þeir alvarlegum mannréttindabrotum, ómannúðlegri meðferð og vanrækslu, samkvæmt mannréttindasamtökunum Amnesty International og Human Rights Watch. Sú stefna ástralskra stjórnvalda að láta hjá líða að takast á við alvarleg mannréttindabrot er liður í að hindra komu fleiri hælisleitenda til landsins, segir í tilkynningu frá Amnesty International.

Um kerfisbundna vanrækslu að ræða

Flóttafólk og hælisleitendur, sem flestum hefur verið haldið á Nauru í þrjú ár, sæta kerfisbundinni vanrækslu af hálfu heilbrigðisstarfsfólks og annarra þjónustuaðila sem áströlsk stjórnvöld réðu til starfa, auk þess að þola tíðar árásir innfæddra sem engin refsing liggur við.

Flóttafólk og hælisleitendur þurfa að þola ónauðsynlegar tafir og stundum synjanir á læknisþjónustu, jafnvel þegar um lífshættulegt ástand ræðir. Mjög margir þjást af alvarlegum andlegum veikindum, sjálfsvígstilraunir eru algengar og sjálfskaðandi hegðun tíð. Örvæntingin er algjör og óvissan um framtíðina ráðandi, segir í tilkynningu frá Amnesty.

„Sú stefna ástralskra stjórnvalda að senda hælisleitendur sem koma til landsins á bát í útlegð er óhemju miskunnarlaus,“ segir Anna Neistat, yfirmaður rannsókna hjá Amnesty International en hún stýrði rannsókninni á Nauru fyrir hönd Amnesty. „Fá önnur lönd ganga jafn langt í að valda því fólki þjáningu sem leitar öryggis og frelsis.“

Kona sem er haldið á Nauru
Kona sem er haldið á Nauru Amnesty International

„Hryllileg meðferð ástralskra stjórnvalda á flóttafólki í Nauru síðustu þrjú árin hefur tekið gríðarlegan toll af velferð þess,“ segir Michael Bochenek, yfirmaður ráðgjafastarfs um réttindi barna hjá Human Rights Watch, sem stýrði rannsókninni á Nauru fyrir hönd Human Rights Watch. „Markmið ástralskra stjórnvalda í Nauru virðist vera að brjóta flóttafólk niður og gildir þá einu hvort um fullorðinn einstakling ræðir eða barn.“

Stjórnvöld í Ástralíu og Nauru leggja mikla áherslu á þá leynd sem hvílir yfir móttöku og meðferð hælisleitenda á Nauru og flestum heimsóknarbeiðnum frá blaðamönnum eða rannsakendum er synjað. Engu að síður tókst rannsakendum frá Amnesty International og Human Rigths Watch að komast til Nauru með löglegum hætti og dvöldu þeir í samtals tólf daga á eyjunni í síðasta mánuði, samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International.

Rannsakendurnir tóku viðtöl við áttatíu og fjóra flóttamenn og hælisleitendur frá Íran, Írak, Pakistan, Sómalíu, Bangladess, Kúveit og Afganistan, auk ríkisfangslausra Kúrda sem búið höfðu í Íran eða Írak. Tuttugu og níu voru konur. Níu börn, fimm stúlkur og fjórir drengir. 

„Nauru, örsnauð og smá eyja sem er tuttugu og einn ferkílómetri að stærð og hýsir 10.000 íbúa, er smærri en flugvöllurinn í Melbourne. Eyjan sem var eyðilögð eftir fjörutíu ára sögu af fosfatnámugreftri er að mestu óræktanleg og óbyggileg. Atvinnutækifæri eru fágæt og grundvallarþjónusta, eins og heilsugæsla eða menntun, er ófullnægjandi,“ segir í skýrslunni. 

Áströlsk stjórnvöld hafa flutt flóttafólk og hælisleitendur til Nauru frá árinu 2012 og greiða allan kostnað af veru þeirra þar.

Tjald sem hýsir flóttafólk á Nauru
Tjald sem hýsir flóttafólk á Nauru Amnesty International

Flóttafólk og hælisleitendur segja aðstæður á gæsluvarðhaldsstöðinni minna á fangelsi þar sem verðir leituðu reglulega í tjöldunum, tóku „óheimilaða” hluti eignarnámi þeirra á meðal mat og saumnálar. Að sögn mátti flóttafólki ekki verja lengri tíma í sturtu en tveimur mínútum og sagði flóttafólkið salernin mjög skítug. 

Gæsluvarðhaldsstöðin er rekin af einkafyrirtæki sem ráðið var af áströlskum stjórnvöldum til að að tryggja velferð og heilbrigði flóttafólksins og hælisleitendanna sem þar dvelja.

„Þeim einstaklingum sem stjórnvöld í Ástralíu og Nauru veita flóttamannastöðu er oftast komið fyrir í flóttamannabúðum eða öðru gistirými á Nauru. Fjölskyldum er oftast úthlutað stöðluðum húsnæðiseiningum eða gámum sem búið er að breyta og einstæðir karlmenn fá eitt herbergi þar sem aðeins er pláss fyrir eitt rúm og litla hillu. Um það bil þriðjungur þess flóttafólks og hælisleitenda sem eru á Nauru dvelur í tjöldum,“ samkvæmt frásögn þeirra sem Amnesty International ræddi við. 

Hafa þróað með sér alvarlegan kvíða

Frá því í október 2015 hafa yfirvöld á Nauru veitt hælisleitendum frekara ferðafrelsi um eyjuna en að margra mati var þetta skref stigið í kjölfar málshöfðunar í Ástralíu þar sem lögmæti þess að halda hælisleitendum í varðhaldi var véfengt. Þeir sem dvelja í tjöldunum sæta hins vegar enn útgöngubanni, er meinað að ganga með farsíma á sér innan svæðisins, sæta eftirliti gæslumanna og margs konar öðrum takmörkunum á frelsi sínu. 

Flóttafólk og hælisleitendur sem rætt var við kváðust hafa þróað með sér alvarlegan kvíða, svefnleysi, skapsveiflur, langvarandi þunglyndi og minnistap, í kjölfar veru sinnar á eyjunni. Börn hafa byrjað að væta aftur undir, þjást af martröðum og hafa sýnt truflandi hegðun. Bæði börn og fullorðnir greindu rannsakendum opinskátt frá ósk sinni um að binda enda á eigið líf. Þrátt fyrir alla þessa djúpstæðu vanlíðan hefur flóttafólk á Nauru ekki fengið sálfræðimeðferð eða annars konar stuðning.

Almenn læknisþjónusta hefur einnig verið af skornum skammti. Lækningatæki og búnaður er ófullkominn og þjónusta sérfræðilækna er ekki aðgengileg. Tannlæknaþjónusta er nær eingöngu bundin við tanntöku.  

Hætta í skóla vegna eineltis og annarra ofsókna

Flóttafólk og hælisleitendur lýstu langri bið eftir sérfræðiþjónustu hjá læknum, jafnvel þegar um alvarleg heilsuvandamál ræðir eða að hafa verið neydd til að sækja sér læknisumönnun utan Nauru ef þjónustan var ekki til staðar á eyjunni,“ segir enn fremur í skýrslu Amnesty.

„Amnesty International og Human Rights Watch telja öryggi þeirra sem haldið er nauðugum á Nauru vera alvarlegt áhyggjuefni. Margir hælisleitendur hafa sætt barsmíðum og verið rændir. Allar þær konur sem rætt var við sögðu að þeim væri ekki óhætt að fara einum út. Þá sögðu viðmælendum að lögreglan á staðnum gerði lítið sem ekkert til að rannsaka árásir gegn þeim. 

Börn hælisleitenda sem sækja skóla í Nauru lýstu tíðu einelti og árásum af hálfu innfæddra nemenda. Margir hafa hætt skólagöngu sinni af þessum völdum.
Margt flóttafólkið kvað lítið annað í stöðunni en að sætta sig við ofbeldið á Nauru eða fara fram á endursendingu til heimalandsins þar sem það stæði frammi fyrir ofsóknum eða annars konar alvarlegum skaða,“ segir ennfremur í tilkynningu frá Amnesty International.

mbl.is

Bloggað um fréttina

110 fm sumarhús á Suðurlandi..
Sumarhús í Biskupstungum til sölu. Eru 2 hús, annað fullbúið og hitt með þrjú sé...
www.flutningur.is 5753000 sendibilastöð
Allar stærðir sendibíla. Traust og góð þjónusta við fyrirtæki og einstaklinga. ...
Málningar- og viðhaldsvinna
Getum bætt við okkur inni- og útiverkefnum. Vönduð vinnubrögð og góð umgengni. T...