Sjá ekki eftir Brexit

Wikipedia

Breskir kjósendur sem kusu með því að Bretland færi úr Evrópusambandinu virðast ekki sjá eftir því að hafa greitt atkvæði með þeim hætti ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar fyrirtækisins YouGov.

Breska dagblaðið Times greinir frá þessu en þjóðaratkvæði fór fram í Bretlandi í lok júní þar sem meirihluti var fyrir því að segja skilið við sambandið.

Samkvæmt skoðanakönnuninni telja 46% ákvörðunina um að yfirgefa Evrópusambandið hafa verið rétta en 42% að hún hafi verið röng. Ef aðeins er miðað við þá sem taka afstöðu með eða á móti eru rúm 52% á því að ákvörðunin hafi verið rétt en tæp 48% að hún hafi verið röng.

Þetta eru nokkurn veginn sömu tölur og komu út úr þjóðaratkvæðinu en þar kusu tæp 52 með úrsögn en rúm 48% með áframhaldandi veru Bretlands í sambandinu.

mbl.is