Assange verður yfirheyrður í Lundúnum

AFP

Sænskir saksóknarar munu yfirheyra Julian Assange, stofnanda Wikileaks, í sendiráði Ekvadors í Lundúnum. Þar hefur hann dvalið í meira en fjögur ár.

Stjórnvöld í Ekvador og Svíþjóð hafa komist að samkomulagi um þetta, en sænsk stjórnvöld hafa lengi krafist þess að Assange verði framseldur til Svíþjóðar og yfirheyrður þar. Er Assange sakaður um kynferðisbrot, en hann neitar sök.

Assange óttast að fari hann til Svíþjóðar verði hann umsvifalaust sendur til Bandaríkjanna og látinn þar svara til saka vegna starfsemi Wikileaks.

Hann leitaði á sínum tíma á náðir stjórnvalda í Ekvador og óskaði eftir pólitísku hæli þar í landi.

Hann bauð sænskum saksóknurum að yfirheyra hann í sendiráði Ekvadors í Lundúnum, en þeir neituðu því ávallt, þangað til nú.

„Á komandi vikum verður dagsetning ákveðin fyrir yfirheyrsluna sem fer fram í sendiráði Ekvadors í Bretlandi,“ sagði í yfirlýsingu frá stjórnvöldum í Ekvador.

Sérstök rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna komst fyrr á árínu að þeirri niðurstöðu að Assange sætti ólöglegu varðhaldi. Kallaði hún eft­ir því að Svíþjóð og Bret­land myndu gera Assange að frjáls­um manni að nýju og sögðu að „varðhaldi hans yrði að ljúka“ auk þess sem lagt var til að Assange fengi bæt­ur vegna máls­ins.

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert