Ein skólastúlknanna talin látin

Kadiza Sultana var sextán ára er hún fór ásamt vinkonum …
Kadiza Sultana var sextán ára er hún fór ásamt vinkonum sínum til Sýrlands til að ganga til liðs við Ríki íslams.

Talið er að ein þriggja breskra táningsstúlkna sem fóru frá London í fyrra til að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafi farist í loftárásum Rússa á borgina Raqqa í Sýrlandi.

Tasnime Akunjee, lögfræðingur foreldra hennar, greindi réttaskýringaþættinum Newsnight sem sýndur er á BBC frá því að foreldrum stúlkunnar hafi borist fréttir af dauða hennar í Raqqa fyrir nokkrum vikum. Þau hafi hins vegar ekki getað staðfest hvort fréttirnar séu réttar vegna ástandsins í Sýrlandi.  

Kadiza Sultana var 16 ára þegar hún flaug, ásamt tveimur vinkonum frá Bethnal Green í London, til Tyrklands. Stúlkurnar höfðu ekki sagt foreldrum sínum frá fyrirætlan sinni, er þær flugu frá Gatwick-flugvelli til Tyrklands. Þær héldu síðan áfram för sinni til Sýrlands og er talið að þær hafi dvalið í borginni Raqqa, sem er eitt af höfuðvígum Ríkis íslams í landinu.

Akunjee sagði Kadizu hafa misst trúna á samtökin og hana hafi langað til að koma aftur heim til Bretlands, en hún hafi ekki þorað að taka áhættuna á þeim hörkulegu refsingum sem liðhlaupar Ríkis íslams sæti.

„Vandinn var sá að áhættan við að yfirgefa svæði var mikil, ef liðsmenn Ríkis íslams fréttu af liðhlaupa þá sætti hann grimmilegri refsingu,“ sagði Akunjee. „Í sömu viku og hún var að hugsa um þetta allt þá náðist ung austurísk stúlka sem reyndi að fara. Hún var barin til ólífis á almannafæri – og þegar haft er í huga að þessar fréttir fóru víða  - þá held ég að Kadiza hafi litið á þetta sem slæman fyrirboða og ákveðið að taka ekki áhættuna.

Ég held hún hafi mjög fljótlega komist að því að veruleikinn var í engu samræmi við áróðurinn.“

Stúlkunum var lýst sem fyrirmyndarnemendum af skólayfirvöldum í Bethnal Green.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert