Amina Ali saknar eiginmannsins

Mohammadu Buhari, forseti Nígeríu, ræðir við Aminu Ali.
Mohammadu Buhari, forseti Nígeríu, ræðir við Aminu Ali. AFP

Amina Ali Nkeki, unga konan sem slapp úr klóm hryðjuverkasamtakanna Boko Haram í maí síðastliðnum, saknar eiginmannsins síns og vill hitta hann á ný. Henni var rænt frá Chibok í Nígeríu í apríl árið 2014 ásamt 275 öðrum skólastúlkum. Á meðan hún var í haldi hópsins var hún gift manni og ól stúlkubarnið Sifiyu. Amina Ali ræddi við blaðamann CNN með aðstoð túlks í gær.

Parið og dóttir þeirra fannst í útjaðri Sambisa-skógarins sem er í norðausturhluta Nígeríu. Amina Ali, sem er 21 árs í dag, segir að þau hafi sjálf flúið úr búðunum en ekki verið bjargað af nígeríska hernum líkt og áður hefur komið fram. Maðurinn hennar, Mohammed Haytu, sagði að honum hefði, líkt og Aminu Ali, verið rænt af hryðjuverkasamtökunum.

Unga konan er frjáls í dag ásamt dóttur sinni en maður hennar var úrskurðaður í gæsluvarðhald og yfirheyrður. Amina Ali segist ekki hafa hugmynd um hvar hann sé niðurkominn og vill gjarnan hitta hann á ný. „Mér líður ekki vel með hvernig mér er haldið frá honun,“ sagði hún. „Ég vil að þú vitir að ég hugsa enn um þig og jafnvel þó að við séum aðskilin þýðir það ekki að ég hafi gleymt þér“, sagði hún einnig og beindi orðum sínum til Haytu.

Unga konan segir að nokkrar þeirra sem haldið var föngum hafi látið lítið í sprengjuárás sem gerð var fyrir rúmu ári síðan. 57 stúlkum hefur tekist að flýja, flestum fljótlega eftir að þær voru numdar á brott en rúmlega 200 stúlkna er enn saknað. Amina Ali segir að fyrsta árið hafi stúlkunum verið haldið saman í hóp. Eftir það voru sumar þeirra „gefnar“ hryðjuverkamönnum.

Amina Ali vildi gjarnan sjá móður sína á ný og segir hún í viðtalinu að löngunum hafi gefið henni hugrekki og styrk til að flýja búðirnar. Blaðamaðurinn spyr hana hvernig henni hafi liðið að verða móðir þegar hún var í haldi. Hún verður alvarleg á svip og segist ekki vilja svara spurningunni.

Hér má sjá Amina Ali með dóttur sinni.
Hér má sjá Amina Ali með dóttur sinni. AFP

Móðir hennar hefur dvalið með henni í höfuðborg Nígeríu síðastliðna tvo mánuði. Unga konan hefur ekki enn snúið aftur til Chibok en segir að hún vilji fara aftur heim og ganga í skóla. „Ég er ekki hrædd við Boko Haram,“ segir hún.

Ekki er vitað hvar stúlkurnar sem eru enn í haldi eru  en talið er að þær séu í Sambisa-skóginumRíkisstjórn Nígeríu hefur greint frá því á Facebook að hún sé í sambandi við Boko Haram og vinni að því að bjarga stúlkunum.

Nkeki er með skilaboð til stúlknanna sem eru enn í haldi. „Ekki missa vonina,“ segir hún. „Verið þolinmóðar.“

Fréttir mbl.is: 

Amina hitti Nígeríuforseta

Var með barn og eiginmann með sér

Ein stúlknanna frá Chibok fundin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert