Bað brasilísku þjóðina afsökunar

Ryan Lochte.
Ryan Lochte. AFP

Bandaríski sundkappinn Ryan Lochte bað í nótt brasilísku þjóðina afsökunar á því að hafa ýkt frásögn sína af vopnuðu ráni sem hann og þrír félagar hans í bandaríska sundliðinu urðu fyrir á meðan á Ólympíuleikunum í Ríó stóð.

Hann neitaði því þó að hafa logið að öllu leyti.

Eins og kunnugt er hélt Lochte því fram að félagarnir fjórir hefðu verið rændir á bensínstöð um síðustu helgi.

Upptökur úr öryggismyndavél sögðu hins vegar aðra sögu. Kom í ljós að mennirnir höfðu unnið skemmdir á salerni á bensínstöðinni og lent í átökum við öryggisvörð á staðnum, sem hringdi síðan í lögregluna.

„Ég var ekki að ljúga að ákveðnu leyti,“ sagði Lochte í samtali við brasilísku sjónvarpsstöðina Globo TV í nótt. Hann hefði aðeins „stórlega ýkt“ það sem hefði komið fyrir hann.

Hann sagðist jafnframt vera leiður yfir málinu. „Brasilía á þetta ekki skilið.“

Alþjóðaólympíunefndin hefur skipað sérstaka rannsóknarnefnd til þess að skoða málið og háttsemi íþróttamannanna ofan í kjölinn.

Það var á sunnudagsmorgun, fyrir réttri viku, sem móðir Lochte sagði USA Today að sonur hennar hefði verið rændur af vopnuðum mönnum þá um nóttina.

Skömmu síðar lýsti banda­ríski sundkappinn því ná­kvæm­lega fyr­ir frétta­manni NBC hvernig hópur manna sem lét­ust vera bras­il­ísk­ir lög­reglu­menn hefði stoppað hann og fé­laga hans þegar þeir voru farþegar í leigu­bíl og rænt þá.

Brasilíska lögreglan sagði hins vegar daginn eftir að ósamræmi væri í framburði mannanna.

Jack Conger og Gunnar Bentz á Miami-flugvellinum.
Jack Conger og Gunnar Bentz á Miami-flugvellinum. AFP

Á miðvikudag voru tveir sundmannanna, Gunnar Bentz og Jack Conger, yfirheyrðir á flugvellinum í Ríó. Þeim var þó að lokum leyft að fara úr landi.

Þriðji félaginn, Jimmy Feigen, samþykkti að greiða ellefu þúsund dali til brasilískra góðgerðarsamtaka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert