Löguðu galla í iPhone vegna njósna

Ísraelskt njósnaforrit nýtti sér öryggisgalla í stýrikerfi Apple-tækja. Fyrirtækið hefur …
Ísraelskt njósnaforrit nýtti sér öryggisgalla í stýrikerfi Apple-tækja. Fyrirtækið hefur nú gefið út uppfærslu þar sem stoppað er í þau göt. AFP

Apple hvetur iPhone-eigendur til þess að sækja sér nýjustu uppfærslu stýrikerfisins eftir að grunur kom upp um að ísraelskt fyrirtæki nýtti sér öryggisgalla í fyrri útgáfu þess til að njósna um andófsmenn og blaðamenn. Slíkir gallar ganga kaupum og sölum hjá þeim sem vilja brjótast inn í raftæki.

Ísraelska fyrirtækið NSO Group selur njósnaforrit sem fylgist með snjallsímum skotmarka njósnanna. Forritið getur lesið textaskilaboð, tölvupósta og fylgst með símtölum og tengiliðum sem eru skráðir í símann. Það getur jafnvel tekið upp hljóð, safnað lykilorðum og fylgst með staðsetningu eigandans, að því er kemur fram í frétt New York Times.

Ahmed Mansoor, þekktur baráttumaður fyrir mannréttindum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, hefur nokkrum sinnum orðið fyrir barðinu á slíkum njósnum. Hann grunaði að ekki væri allt með felldu þegar hann fékk grunsamleg smáskilaboð sem áttu að innihalda upplýsingar um pyntingar á samlöndum hans.

Mansoor sendi skilaboðin áfram til rannsakenda hjá Citizen Lab við Háskólann í Toronto, sem staðfesti að þau kæmu frá NSO Group. Njósnaforritið hagnýtti sér þrjá galla í stýrikerfi Apple-tækja. Þeir létu í kjölfarið Apple vita af öryggisbrestinum. Tæknimenn þess tóku strax til við að skrifa lausn á vandamálinu og hefur fyrirtækið nú gefið út uppfærslu á stýrikerfinu.

Upplýsingar um öryggisgalla sem framleiðendur raftækja vita ekki af eru sagðar ganga kaupum og sölum á milli hakkara, njósnastofnana og löggæsluyfirvalda. Sérstaklega seljist upplýsingar um galla í Apple-vörum dýrum dómum.

Fyrr á þessu ári greindi bandaríska alríkislögreglan FBI frá því að hún hafi greitt hökkurum fyrir að brjótast inn í síma annars skotárásarmannsins í San Bernardino í Kaliforníu eftir að Appple neitaði að aðstoða við það. Hvorki hakkararnir né lögreglan hefur sagt Apple hvernig það var gert og því er ekki vitað hvort þeirri smugu hefur verið lokað.

Frétt New York Times 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert