Fimm ár fyrir Pokémon-veiðar í kirkju

Pokémon-æði greip um sig í sumar, hér á landi og …
Pokémon-æði greip um sig í sumar, hér á landi og um allan heim. AFP

Rússneskur YouTube-ari á yfir höfði sér fimm ára fangelsisdóm eftir að hann myndaði sjálfan sig spila Pokémon Go í kirkju. Ruslan Sokolovsky fangaði það á myndavél þegar hann gómaði Pokémon-fígúru í Church of All Saints í Yekaterinburg í ágúst sl. en lögrega hóf rannsókn á atvikinu eftir að Sokolovsky birti myndbandið á YouTube.

„Hvernig er hægt að móðga einhvern með því að fara inn í kirkju með snjallsíma? Ég ákvað að góma nokkra Pokémona í kirkjunni, því af hverju ekki? Ég taldi það öruggt og ekki ólögmætt,“ segir Sokolovsky.

Rannsóknarnefndin sem hefur málið til skoðunar sendi frá sér yfirlýsingu á laugardag þar sem sagði að hinn 21 árs Sokolovsky hefði verið ákærður fyrir að kynda undir hatur og móðga trúartilfinningar fólks. Hann hefði verið úrskurðaður í tveggja mánaða gæsluvarðhald og ætti yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi.

Um er að ræða sömu ákæruliði og liðsmenn Pussy Riot voru dæmdir fyrir árið 2012.

Talsmaður rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar sagði á Facebook að Sokolovsky væri vel þekktur ungur bloggari sem beitti aðferðafræði Charlie Hebdo. Hann hefði ekki verið handtekinn fyrir að góma Pokémona.

Yevgeny Roizman, borgarstjóri Yekaterinburg, sagði handtökuna hins vegar argasta hneyksli. „Þú getur ekki handtekið mann fyrir fávitaskap,“ sagði hann.

Rússneskir embættismenn virðast lítt hrifnir af Pokémon Go og hafa gagnrýnt leikinn opinberlega. Þá sagði fjarskiptamálaráðherrann Nikolai Nikiforov í samtali við Moscow Times að hann grunaði að leyniþjónustur hefðu komið að gerð smáforritsins.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert