Stjórn Karólínska leyst frá störfum

Frá barkaígræðslunni á Beyene.
Frá barkaígræðslunni á Beyene. Ljósmynd/Karólínska stofnunin

Sænsk stjórnvöld hafa leyst stjórn Karólínska stofnunarinnar í Svíþjóð frá störfum eftir að rannsókn leiddi í ljós að hún hefði sýnt vanrækslu er hún réði skurðlækninn Paolo Macchiarini til starfa og leyfði honum að gera aðgerðir á sjúklingum.

Þetta er mikið áfall fyrir stofnunina sem sér um að veita Nóbelsverðlaunin í læknisfræði.

Ritari Nóbelsverðlaunanefndarinnar hafði áður sagt af sér vegna ráðningar Macciarini.

Skurðlæknirinn var rekinn í mars þegar Karólínska sagði að hann hefði gefið rangar upplýsingar á starfsferilsskrá sinni og að hann hefði gerst sekur um vanrækslu eftir að tveir af sjúklingum hans létust.

Anders Hamsten, rektor stofnunarinnar, hafði þá þegar sagt af sér vegna hneykslisins í kringum barkaígræðslur Macciarini.  

Frétt mbl.is: Segir af sér vegna plastbarkamálsins

Sænskir saksóknarar rannsaka nú Macchiarini vegna gruns um glæpsamlega vanrækslu eftir að einn sjúklingur til viðbótar lést. Hann hefur neitað öllum ásökunum þess efnis.

„Hneyksli er rétta orðið,“ sagði ráðherra menntamála og rannsókna, Helene Hellmark Knutsson, á blaðamannafundi, að því er Reuters greinir frá.

„Fólk hefur skaðast vegna framferðis Karólínsku stofnunarinnar og einnig Karólínska sjúkrahússins.“

Aftonbladet greinir einnig frá málinu á vefsíðu sinni og sýnir frá blaðamannafundinum. 

Að sögn Knutsson sýndi rannsóknin fram á að stofnunin hafi brotið lög og reglugerðir og að hún hafi sýnt vanvirðingu gagnvart lögum og siðferði.

Tómas Guðbjartsson, prófessor í skurðlækningum við Háskóla Íslands, var meðal þeirra sem komu að einni aðgerð Macciarini, eða á Erítreumanninum Andemariam T. Beyene, sem var nemandi við Háskóla Íslands. Hann glímdi við krabbamein í hálsi en lést eftir aðgerðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert