Stjórnarandstaðan með einn þingfulltrúa

Alexander Lukashenko, forseti Hvíta Rússlands, á kjörstað í gær. Hann …
Alexander Lukashenko, forseti Hvíta Rússlands, á kjörstað í gær. Hann fullyrti við fjölmiðla að Hvít-Rússar hefðu orðið við öllum kröfum Vesturlanda. AFP

Þing Hvíta-Rússlands mun á næsta kjörtímabili vera skipað að minnsta kosti einum þingmanni stjórnarandstöðunnar og verður það fyrsti fulltrúi stjórnarandstöðunnar á þingi í landinu í 20 ár.

Landskjörnefnd tilkynnti í dag að Anna Konopatskaya, sem bauð sig fram fyrir Sameinaða borgaraflokkinn, hafi tryggt sér eitt þeirra 110 sæta sem nú er kosið um í neðri deild þingsins.

Búist er við að flest hinna þingsætanna muni falla í skaut stuðningsmönnum forsetans, Alexanders Lukashenko.  

Frambjóðendur stjórnarandstöðunnar áttu auðveldara með að bjóða sig fram nú en í fyrri kosningum og segja fréttaskýrendur ástæðuna vera kröfu Vesturveldanna um aukið gagnsæi í kosningum.

Alþjóðlegum eftirlitsaðilum var, að sögn fréttavefjar BBC, einnig veittur aðgangur að talningu. Fjölmargir, m.a. mannréttindasamtök og eftirlitsmenn, hafa þó lýst því yfir að brögð hafa verið í tafli og að framkvæmd kosninganna hafi ekki eins og best verður á kosið.

Stirðari samskipti við Rússa eftir innlimun Krímskaga

Þýða hefur myndast í samskiptum Hvíta Rússlands og Vesturlanda eftir að Lukashenko lét, í kjölfar yfirburða sigurs forsetakosningunum í október á síðasta ári, lausa úr fangelsi alla pólitíska fanga í landinu. Þá hefur vilji hans að koma á friðarviðræðum milli stjórnvalda í Úkraínu og Rússlandi einnig mætt velvild Vesturlandanna.

Lukashenko hefur verið við völd í Hvíta-Rússlandi frá því 1994 og hefur jafnan haldið nánum tengslum við stjórnvöld í Rússlandi. Samskipti Hvíta-Rússlands og Rússlands hafa þó stirðnað nokkuð eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga 2014 og hafa Hvít-Rússar í kjölfarið reynt að bæta samband sitt við Vesturlönd.

Óstaðfestar fréttir hafa einnig borist af því að Elena Anisim hafi einnig hlotið kosningu, en hún var í einstaklingsframboði til þingsins.

„Við höfum gert allt til að tryggja að það berist engar kvartanir frá Vesturlöndum. Við höfum orðið við óskum þeirra,“ sagði Lukashenko við fjölmiðla er hann mætti á kjörstað í gær.

Tveir stærstu stjórnarandstöðuflokkar landsins sniðgengu síðustu þingkosningar sem haldnar voru í landinu 2012, en að þessu sinni voru 200 af 448 frambjóðendum úr röðum stjórnarandstöðunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert