Shimon Peres fékk hjartaáfall

Shimon Peres.
Shimon Peres. AFP

Fyrrverandi forseti Ísraels og handhafi friðarverðlauna Nóbels, Shimon Peres, fékk hjartaáfall í dag og var í kjölfarið fluttur á sjúkrahús í borginni Tel Aviv. Peres er 93 ára gamall.

Fram kemur í frétt AFP að Peres sé á gjörgæsludeild sjúkrahússins. Tengja þurfti hann við öndunarvél en hjartaáfallinu fylgidu innvortis blæðingar. Haft er eftir syni hans Chemi að fjölskyldan standi frammi líklega frammi fyrir erfiðri ákvörðun síðar en ekki strax.

Peres hefur gegnt nær öllum helstu embættum Ísraels. Hann var einn af stofnendum ríkisins og var bæði forseti þess og forsætisráðherra. Hann var einnig bæði utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra um tíma sem og fjármálaráðherra og samgönguráðherra.

mbl.is