Juncker segir Breta ekki geta valið úr að vild

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdaráðs Evrópusambandsins segir ESB ekki stafa ógn af útgöngu Bretlands úr sambandinu og varaði Breta jafnframt við því að þeir geti ekki búist við aðgengi að innri mörkuðum sambandsins án frjálsra fólksflutninga. Bresk stjórnvöld muni ekki geta valið úr það sem þeim henti.

Juncker kallaði enn fremur eftir stofnun sameinaðs herstyrks ríkjanna á ræðu sinni á fundi Evrópuþingsins. „Við þurfum á evrópskum höfuðstöðvum að halda,“ sagði Junker.

Að sögn fréttavefjar BBC hafa stjórnvöld í Bretlandi alltaf hafnað hugmyndinni um sérstakan ESB her vegna mögulegs ágreinings við Atlantshafsbandalagið (NATO. Sú ákvörðun Breta að segja skilið við ESB kann því að gefa hugmyndum um aukið varnarsamstarf ESB ríkja byr undir báða vængi.

„Þetta ætti að vera til viðbótar við NATO,“ sagði Juncker. „Auknar varnir í Evrópu þurfa ekki að þýða minni einingu milli Atlantshafsríkja.“ Sérstakur evrópskur varnarsjóður muni örva hernaðarrannsóknir og þróun.

Lunganum af ræðu sinni varði Juncker þó í að ræða áhrif útgöngu Bretlands. Vernda þurfi Evrópu fyrir áhrifum lýðskrumara sem notið hafi aukinna vinsælda í kjölfar klofningsins.

Hann gagnrýndi einnig nýlegar árásir á innflytjendur í Bretlandi og kvaðst „aldrei munu samþykkja að pólskir verkamenn sættu barsmíðum á götum í Essex.“

Þá hvatti hann til aukinnar áherslu á sameiningarafl ESB. „Umfram allt þá felur Evrópa í sér frið – það er enginn tilviljun að lengsta friðartímabilið hófst með stofnun Evrópusambandsins,“ sagði Juncker.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, vill auka varnir Evrópu.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, vill auka varnir Evrópu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert