Hundruð manna og fíla fallið í árekstrum

Fíll nærir sig nærri rafmagnsvír sem settur hefur verið upp …
Fíll nærir sig nærri rafmagnsvír sem settur hefur verið upp til að forða árekstrum milli fíla og manna. AFP

Stjórnvöld á Sri Lanka tilkynntu í dag að þau hygðust flytja bændur sem búa nærri skóglendi þar sem fílar eiga heimkynni sín. Tilgangur búferlaflutninganna er að draga úr dauðsföllum, bæði manna og fíla.

Dýralífsráðherrann Gamini Jayawickrama Perera sagði að fílastofn eyjunnar hefði minnkað úr 7.379 dýrum í 6.000 dýr á síðustu fimm árum en þeim atvikum hefur fjölgað þar sem mönnum og fílum lendir saman með banvænum afleiðingum.

Perera sagði rafmagnsgirðingar sem hefðu verið reistar til að koma í veg fyrir atvik af þessu tagi hefðu ekki skilað tilætluðum árangri.

Flytja þarf bændur í 18 héruðum af 25 en stjórnvöld hafa ekki gefið upp um hversu margar fjölskyldur er að ræða. Fílasérfræðingurinn Jayantha Jayewardene segist telja að fjöldinn nemi þúsundum.

„Sri Lanka fíllinn flytur sig venjulega ekki frá einum stað til annars en það sem hefur gerst er að þúsundir bænda hafa teygt sig inn á svæði fílsins og skipt því upp. Þetta leiðir til tíðra árekstra og við þurfum að grípa til ígrundaðra aðgerða til að leysa vandann.“

Fílar eru heilög dýr á Sri Lanka og þeir sem drepa fíl eiga mega eiga von á því að vera dæmdir til dauða.

Samkvæmt opinberum tölum hafa 270 menn og 942 fílar fallið í árekstrum milli tegundanna tveggja á síðastliðnum fjórum árum. Fílar verða einnig fyrir lestum og eru fórnarlömb náttúruhamfara, og þá eru kvendýrin stundum drepin svo hægt sé að taka ungana þeirra sem hafðir eru fyrir gæludýr.

mbl.is