Saksóknari New York rannsakar Trump Foundation

Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana ásamt dóttur sinni Ivönku á kosningafundi. …
Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana ásamt dóttur sinni Ivönku á kosningafundi. Fjölmiðar hafa birt margar og misfagrar sögur um góðgerðarfélag í eigu Trump undanfarið. AFP

Saksóknari New York hefur staðfest að Trump Foundation, góðgerðarstofnun í eigu Donalds Trumps forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins, sé nú til rannóknar hjá embættinu vegna óviðeigandi fjárframlaga.

Eric Schneiderman sagði saksóknaraembættið vilja fullvissa sig um að stofnunin starfaði í samræmi við lög New York um góðgerðarfélög.

Fjölmiðar hafa birt margar og misfagrar sögur um Trump Foundation undanfarið og hefur starfsfólk framboðs Trump hafnað þeim sem kosningaáróðri úr herbúðum demókrata.

Schneiderman hefur, að sögn fréttavefjar BBC, lýst yfir stuðningi við forsetaframboð Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrataflokksins.

Jason Miller, talsmaður framboðs Trump, sagði Schneiderman hafa árum saman horft framhjá Clinton Foundation góðgerðarstofnuninni og kallaði rannsóknina „enn ein vinstri árásina sem draga eigi athygli frá hörmulegri viku Hillary Clinton.“

Rannsaka fjarstuðning við saksóknara Flórída

CNN fréttastofan hefur eftir Schneiderman að saksóknaraembættið hafi áhyggjur af að einhver framlög Trump Foundation geti talist óviðeigandi.

„Við höfum spurt forsvarsmenn stofnunarinnar út í málið og höfum verið í samskiptum við þá. Ég hef ekki verið að gera mikið úr þessu eða boða til blaðamannafunda, en við erum búin að vera að skoða Trump Foundation til að fullvissa okkur um að hún starfi í samræmi við við lög New York um góðgerðarfélög.“

Bandarískir fjölmiðlar segja stofnunina hafa verið til rannsóknar hjá saksóknaraembættinu frá því í júni, þegar formleg fyrirspurn var lögð fram í tengslum við fjárstuðning Trump Foundation árið 2013 við hóp sem styður repúblikanann Pam Bondi, sem er saksóknari á Flórída.

25.000 dollarar eru sagðir hafa verið greiddir hópnum á sama tíma og saksóknaraembættið á Flórída var að skoða hvort hefja ætti rannsókn á ásökunum á hendur Trump University háskólans um fjársvik. Ekkert varð af rannsókninni, en Bondi hefur alfarið neitað því að fjárstuðningurinn hafi haft einhver áhrif á þá ákvörðun sína.

Starfsmenn Trump hafa sagt fjárstuðninginn hafa verið færslumistök í bókhaldi.

Þingmenn Demókrataflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa þegar óskað eftir því að að bandaríska dómsmálaráðuneytið rannsakið fjárstuðninginn við Bondi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert