Hvað vissi eiginkonan?

Lögreglan birti þessa mynd af Ahmad Khan Rahami eftir sprengjuárásina …
Lögreglan birti þessa mynd af Ahmad Khan Rahami eftir sprengjuárásina um helgina. AFP

Eiginkona mannsins sem grunaður er um sprengjuárásir í New York og New Jersey yfirgaf Bandaríkin nokkrum dögum fyrir árásirnar. Þetta hefur lögreglan nú upplýst. Yfirvöld í Bandaríkjunum, Pakistan og Sameinuðu arabísku furstadæmunum vinna nú að því í sameiningu að hafa upp á konunni en þau telja sig þurfa að yfirheyra hana vegna málsins.

Frétt mbl.is: Alvarlega særður eftir handtöku

Fjallað er um málið í frétt CNN og í fréttaskýringu þeirra kemur fram að mörgum spurningum sé enn ósvarað. Hvaða hvatir lágu að baki árásunum hjá Ahmad Khan Rahami? Átti hann sér samverkamenn? Af hverju fór hann í löng ferðalög til Pakistans og Afganistans?

Rahami var handtekinn eftir skotbardaga við lögreglu í gær. Hann er bandarískur ríkisborgari, 28 ára að aldri.

Lögreglan segir hann hafa bein tengsl við árásirnar í New York Og New Jersey um helgina. Hann hefur þegar verið ákærður fyrir tilraun til manndráps. Margir særðust í árásinni í New York en allir hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi.

Handtakan bar þannig að að eigandi kráar í New York kom að Rahami sofandi við staðinn á mánudagsmorgunn. Hann bar kennsl á hann úr fréttum og hringdi á lögregluna. Er hún kom á vettvang dró Rahami upp skammbyssu og hóf skothríð. Hann skaut lögreglumann en skothelt vesti bjargaði lífi hans. Lögreglan skaut Rahami nokkrum skotum og var hann fluttur á sjúkrahús þar sem hann gekkst undir aðgerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert