Aleppo vatnslaus eftir loftárásir

UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, segir árásir á borgina í gær hafa komið í veg fyrir að hægt hafi verið að gera við bilaðar vatnsdælustöðvar í austurhluta borgarinnar, sem er á valdi uppreisnarmanna.

Í hefndarskyni segir UNICEF að uppreisnarmenn hafi skrúfað fyrir vatn í nærliggjandi dælustöðvum, sem sjá um að flytja vatn til annarra hluta borgarinnar.

Fréttavefur BBC segir sýrlenska stjórnarherinn hafa lýst því yfir að hann sé staðráðinn í að ná á sitt vald þeim hlutum Aleppo sem eru á valdi uppreisnarmanna. Árásum verði því haldið áfram af fullum krafti á næstunni.

„Vatn rennur ekki lengur til íbúa í austurhluta Aleppo eða vesturhluta Aleppo, eða um alla Aleppo, til tæplega tveggja milljón manna,“ sagði Kieran Dwyer, talsmaður UNICEF. Þetta gæti haft „hörmulegar afleiðingar“ í för með sér fyrir íbúa, sem þar með neyðist til að drekka mengað vatn sem geti leitt ýmissa sjúkdóma.

Dwyer sagði stríðandi aðila nota vatnið sem vopn í deilu sinni. Dælustöðin sem flytur vatn til íbúa þess hluta borgarinnar sem er á valdi uppreisnarmanna hafi skemmst í árásum á fimmtudag og áframhaldandi loftárásir á borgarhlutann hafi gert mönnum ómögulegt að gera við dælustöðina.

„Þessi dælustöð flytur vatn til allra íbúa austurhluta borgarinnar – það eru að minnsta kosti 200.000 manns og í hefndarskyni fyrir þá árás hefur verið skrúfað fyrir vatn í nærliggjandi dælustöð sem flytur vatn til alls vesturhluta borgarinnar – til allt að 1,5 milljónar manna,“ sagði Dwyer.

Uppreisnarmenn segja bæði rússneskar herflugvélar og flugvélar sýrlenska stjórnarhersins hafa tekið þátt í árásum undanfarinna daga, Rússar hafa hins vegar ekki staðfest að þau séu þátttakendur í árásunum.

Rússnesk stjórnvöld styðja sýrlensk stjórnvöld á meðan að bandarísk stjórnvöld styðja hópa uppreisnarmanna. Stjórnvöld beggja ríkja saka hvort annað um að standa ekki við loforð um að þrýsta á bandamenn sína um að draga úr árásunum, eftir að sjö daga vopnahlé brast á mánudag.

Yfirmaður sjúkrahúss á svæði uppreisnarmanna í borginni greindi Reuters fréttastofunni frá því að 91 hefðu farist í árásunum á borgina í gær. Inn á milli árásarhrinanna reyndu sjálfboðaliðar, sem ganga undir nafninu Hvítu hjálmarnir, að leita í húsarústum að fórnarlömbum árásanna.

Þá hafa 25 manns farist í loftárásum á Aleppo í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert