Eistar bíða enn nýs forseta

Kjörkassinn tæmdur í Tallinn.
Kjörkassinn tæmdur í Tallinn. AFP

Hvorugur frambjóðendanna í forsetakosningunum í Eistlandi hlaut hreinan meirihluta atkvæða í kosningu kjörmannaráðs landsins í dag. Kosningin var haldin í kjölfar þess að hvorugum tókst að tryggja sér tvo þriðju atkvæða í þremur umferðum á þinginu.

Báðir kandídatarnir, Siim Kallas og Allar Joks, hafa tilkynnt að þeir hyggjast ekki sækjast eftir embættinu nú þegar fyrir liggur að boltinn er aftur kominn til þingsins. Þingið þarf að kjósa aftur um forseta innan 14 daga en áður verður auglýst eftir framboðum á ný.

Kjörmannaráðið samanstendur af þingmönnum landsins og sveitarstjórnafulltrúum. Það telur 335 einstaklinga en Kallas hlaut 138 atkvæði og Joks 134. Auðir og ógildir seðlar voru 60 en frambjóðendur þurfa 165 atkvæði til að bera sigur úr býtum.

Tonis Saarts, stjórnmálafræðingur við háskólann í Tallinn, varar við því að þinginu takist ekki að komast að niðurstöðu. Sem fyrr segir þarf kandídat að tryggja sér tvo þriðju 101 atkvæðis þingmanna til að sigra.

Þegar þingið gekk til atkvæða í ágúst sl. skiptust atkvæðin milli sex frambjóðenda.

„Ég get ekki útilokað að atkvæðagreiðslan fari aftur til kjörmannaráðsins og að við verðum að fást við þetta þar til í enda október,“ sagði Saarts í samtali við AFP.

Forsetaembætti í Eistlandi er svipað og á Íslandi; forsetinn hefur lítil völd en getur þó neitað að skrifa undir lagafrumvörp frá þinginu. Núverandi forseti er Toomas Hendrik Ilves, en hann hefur þegar setið tvö fimm ára kjörtímabil sem er hámarkið samkvæmt lögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert