Öryggisráðið fundar um Aleppo

Sýrlenskur drengur fær aðhlynningu á spítala eftir loftárásir stjórnarhersins.
Sýrlenskur drengur fær aðhlynningu á spítala eftir loftárásir stjórnarhersins. AFP

Hersveitir Bashar al-Assad Sýrlandsforseta hafa hert umsátur sitt um Aleppo eftir stöðugar loftárásir síðasta sólarhring. Tugir eru látnir og nærri 2 milljónir án vatns. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun hittast í dag til að ræða um átökin um Aleppo, en það voru Bandaríkin, Bretland og Frakkland sem óskuðu eftir fundinum.

Að því er fram kemur hjá Guardian hefur sprengjum rignt yfir borgina frá því á fimmtudag þegar Assad, ásamt bandamönnum sínum Rússum, féll frá umsömdu vopnahléi. Þá réðst stjórnarherinn til árásar gegn uppreisnarmönnum í borginni, sem var sú stærsta áður en borgarastyrjöld braust út í landinu.

Ástandið er erfitt; á meðan almennir borgarar deyja í loftárásum Sýrlandshers og Rússa, freista diplómatar þess enn að komast að nýju samkomulagi um vopnahlé.

Umfang árásanna og kraftur þeirra sprengja sem nú er varpað á borgina er sagt fordæmalaust. Aleppo er þó sú borg í Sýrlandi sem hefur orðið einna verst úti í stríðinu, m.a. vegna áralangrar notkunar ónákvæmra tunnu-sprengja.

Hersveitir Sýrlandsforseta hafa sótt fram og m.a. náð á sitt vald Handarat-búðum þar sem palestínskir flóttamenn höfðust við. Búðirnar hafa verið yfirgefnar en eru mikilvægar þar sem þær eru á hæð þar sem útsýni er yfir Castello-veginn sem liggur inn í Aleppo.

Vegurinn féll í hendur stjórnarhersins í júlí.

Liðsmenn sýrlenska stjórnarhersins safnast saman í Handarat, palestínskum flóttamannabúðum sem …
Liðsmenn sýrlenska stjórnarhersins safnast saman í Handarat, palestínskum flóttamannabúðum sem hafa verið yfirgefnar. AFP

Aðgerðasinnar segja fleiri en 50 lík hafa fundist í Aleppo frá því á föstudag. Einn varaði við því að fólk sé farið að gefa upp vonina.

Meðal þeirra vopna sem Sýrlandsher er sagður hafa beitt í árásunum eru sprengjur sem geta fellt heilu byggingarnar. Í sumum tilfellum finnast engin ummerki þeirra sem verða fyrir slíkri sprengju og því getur verið erfitt að áætla fjölda látinna.

Stjórnarherinn er sagður hafa ráðist gegn höfuðstöðvum „hvíthjálmanna“, viðbragðsteymis sem hefur unnið að því að grafa fólk úr rústum bygginga. Liðsmönnum teymisins hefur fækkað og það býr aðeins að tveimur slökkviliðsbifreiðum eins og er.

Læknar berjast við að veita þeim aðstoð sem koma á þau sjúkrahús borgarinnar sem enn standa og aðföng eru af skornum skammti. Þá óttast menn sjúkdómafaralda þar sem milljónir eru án vatns.

Aleppo er í rúst eftir átök síðustu ára.
Aleppo er í rúst eftir átök síðustu ára. AFP

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í vikunni að mál hefðu þokast örlítið áfram í viðræðum við rússneskan kollega hans, Sergei Lavrov. Lavrov gaf hins vegar til kynna að nýtt vopnahlé væri ekki í sjónmáli.

Assad er sagður staðráðinn í því að ná borginni á sitt vald en talið er ólíklegt að það verði á næstunni, þar sem íbúar borgarinnar eru sagðir óttast hefnd af hálfu stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert