Kaljulaid nýr forseti Eistlands

Kersti Kaljulaid er fyrsti kvenkyns forseti Eistlands.
Kersti Kaljulaid er fyrsti kvenkyns forseti Eistlands. AFP

Kersti Kaljulaid var í dag kjörin nýr forseti Eistlands af eistneska þinginu, en hún er fyrsti kvenkyns forseti landsins frá sjálfstæði þess árið 1991. Kaljulaid hlaut 81 atkvæði, en alls eru þingmennirnir 101.

Kaljulaid er 46 ára gömul og hefur starfað hjá Endurskoðunarrétti Evrópusambandsins síðustu tólf ár. Hún er fimmti forseti landsins. Kaljulaid kom inn sem óvæntur frambjóðandi í síðustu viku, en hún var tilnefnd eftir að þingheimi og hópi sveitarstjórnarfólks mistókst að knýja fram afgerandi úrslit í kosningunum. 

Ton­is Sa­arts, stjórn­mála­fræðing­ur við há­skól­ann í Tall­inn, segir Kaljulaid fremur óþekkta meðal almennings í Eistlandi og því þurfi hún að kynna sig og sínar áherslur vel á næstu vikum. Þrátt fyrir að Eistar séu framarlega þegar kemur að kvenréttindum sé það stórt og mikilvægt skref að forseti landsins sé nú kona.

Án forseta síðustu vikur

Eistar hafa verið án forseta síðustu vikur eftir að þingheimi tókst ekki að velja forseta í þremur atrennum. Kveða lög þá á um að kalla beri til 234 sveitarstjórnarmenn, þingheimi til fulltingis. Þessum stækkaða kjörmannahópi mistókst einnig að koma sér saman um arftaka Toomasar Hendriks Ilves, sem setið hefur á forsetastóli í 10 ár. 

Þegar þingið gekk til at­kvæða í ág­úst sl. skipt­ust at­kvæðin milli sex fram­bjóðenda. Í kjölfarið kaus kjörmannahópurinn á milli tveggja efstu, Siim Kallas og All­ar Joks, en hvorugur þeirra hlaut hreinan meirihluta. Til­kynntu þeir báðir í framhaldinu að þeir hygðust ekki sækj­ast eft­ir embætt­inu eftir að lá fyrir að bolt­inn væri aft­ur kom­inn til þings­ins. Eftir það var auglýst eftir framboðum á ný og þurfti þingið þá aftur að kjósa um forseta innan 14 daga.

For­seta­embætti í Eistlandi er svipað og á Íslandi; for­set­inn hef­ur lít­il völd en get­ur þó neitað að skrifa und­ir laga­frum­vörp frá þing­inu. Fráfarandi for­seti landsins, Toom­as Hendrik Ilves, sat tvö fimm ára kjör­tíma­bil sem er há­markið sam­kvæmt lög­um.

Frétt mbl.is: Eistar bíða enn nýs forseta

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert