Beittu táragasi á mótmælendur

Lögregla beitti mótmælendur táragasi.
Lögregla beitti mótmælendur táragasi. Mynd/AFP

Ár er liðið frá því að mannskæðasta sprengjuárás í sögu Tyrklands var gerð í höfuðborginni Ankara. 103 létust í árásinni og fjölmargir særðust. Árásin var gerð á friðarsamkomu í borginni en stór hluti þeirra sem létust voru Kúrdar.

Umfjöllun mbl.is: Sprengjuárás í Ankara

Fram kemur í frétt BBC  að kúrdískir aðgerðasinnar hafi í dag komið saman í Ankara til að mótmæla árásinni. Ofbeldi milli kúrdískra vígamanna og tyrkneskra hersins hefur aukist gríðarlega á síðastliðnu ári.

Lítill hópur ættingja fórnarlambanna var samankominn á vettvangi árásarinnar en tugum aðgerðasinna var meinaður aðgangur.  Beitti lögregla táragasi en aðgerðasinnar köstuðu flöskum og steinum í átt að lögreglu. Um 60 voru handteknir, að því er fram kemur í frétt BBC.

Talið er að jíhadistar úr röðum Ríkis íslams hafi staðið fyrir árásinni 10. október 2015 en enginn hefur verið kærður fyrir undirbúning hennar. Síðan þá hafa fleiri sprengjuárásir verið gerðar í landinu, bæði í Ankara og Istanbúl. Talið er að Ríki íslams og kúrdískir vígamenn séu bak við árásirnar.

Haft er eftir tyrkneska hernum að á síðustu sex vikum hafi 417 Kúrdar verið drepnir og tugir aðrir handsamir. Einhverjir óttuðust að kúrdískir vígamenn hefðu í hyggju að gera árás á höfuðborgina í dag en tveir menn sprengdu sig í loft upp þegar lögregla nálgaðist þá í útjaðri Ankara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert