Upplýsingasöfnunin mannréttindabrot

Höfuðstöðvar MI6 í Lundúnum.
Höfuðstöðvar MI6 í Lundúnum. Wikipedia/Tagishsimon

Sérstakur dómstóll í Bretlandi hefur komist að þeirri niðurstöðu að öryggisyfirvöld í landinu brutu gegn mannréttindum með því að safna persónulegum gögnum um íbúa á laun í um áratug.

Umræddur dómstóll er sá eini sem hefur til umfjöllunar kvartanir gegn MI5, MI6 og GCHQ; öryggis- og leyniþjónustustofnunum Bretlands. Hann komst að þeirri niðurstöðu að stofnanirnar hefðu staðið í aðgerðum sem fólu í sér umfangsmikla söfnun uppýsinga um íbúa landsins, t.d. varðandi síma- og netnotkun.

Ekkert eftirlit hefði verið með aðgerðunum.

Dómstóllinn sagði að með þessu hefðu stofnanirnar brotið gegn 8. grein mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem fjallað er um friðhelgi einkalífsins. Brotin áttu sér stað allt frá því að upplýsingasöfnunin hófst 1998 og 4. nóvember 2015, þegar hún var gerð opinber.

Stofnanirnar voru einnig sagðar hafa brotið gegn sömu grein sama sáttmála með því að reka gagnasöfn þar sem finna mátti alls kyns gögn um ákveðna einstaklinga, s.s. heilsufars- og skattaupplýsingar, samskipta- og ferðagögn og æviatriði viðkomandi.

Þess ber að geta að lávarðadeild breska þingsins hefur til umfjöllunar umdeilt frumvarp sem veitir ýmsum aðgerðum öryggisstofnananna stoð í lögum. Það var Edward Snowden sem kom fyrstur upp um umfang aðgerða stofnananna árið 2013.

Fram kemur í dóminum að starfsmönnum stofnananna voru sendar viðvaranir um að nota ekki gagnagrunnana til að leita að upplýsingum um vini, ættingja, nágranna eða samstarfsmenn. Þá leiddi rannsókn dómstólsins í ljós að innan stofnananna höfðu menn áhyggjur af leyndarhyggjunni kringum upplýsingasöfnunina.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert