Leitar myndavéla á klósettbásum

Sérstök kvennasveit tekur að sér að skoða almenningsklósett í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu til að leita uppi myndavélar sem faldar hafa verið á salernunum, jafnvel í klósettskálinni sjálfri. Sveitin er í forsvari fyrir baráttunni gegn „molka“ eða „leynimynda klámi“.

Park Kwang-Mi er ein þessara kvenna og hún skoðar klósettsetur, klósettrúlluhaldara, dyrahúna og jafnvel loftræstinguna í loftinu.

„Það er mitt hlutverk að tryggja enginn myndi konur á meðan þær eru á klósettinu,“ sagði Park í samtali við AFP-fréttastofuna.

„Það er skrýtið að hugsa til þess að það sé til fólk sem vill horfa á svona ...en þetta er nauðsynlegt svo konur upplifi sig öruggar.“

Íbúar Suður-Kóreu eru stoltir af þeim miklu tækniframförum sem eiga sér stað í landinu, ekki hvað síst í þróun snjallsíma. Um 90% Suður-Kóreubúa eiga snjallsíma og er hlutfallið hvergi hærra.

Tæknin hefur þó einnig gert gluggagægjum og öðrum þeim sem fylgjast með öðrum án þess að láta vita af sér nýjar leiðir til að stunda iðju sína og nokkuð er m.a. um að myndað sé upp undir pils kvenna að þeim óafvitandi er þær ferðast með neðanjarðarlestinni, eða sitja við skrifborð sitt. Þá hefur njósnamyndavélum einnig verið komið fyrir í fataklefum og klósettbásum.

Slíkar myndir nefnast molka og er deilt á sérstökum síðum á netinu. Molka nýtur nú svo mikilla vinsælda í landinu að allir snjallsímar sem seldir eru í Suður-Kóreu þurfa nú að gefa frá sér háan smell þegar tekinn er mynd, til að myndatakan fari ekki framhjá neinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert