„Ég vissi ekkert“

Mateen skaut 49 manns til bana í Pulse í júní.
Mateen skaut 49 manns til bana í Pulse í júní. AFP

Noor Salman, eiginkona mannsins sem drap 49 í skotárás á skemmtistað í Orlando í júní hefur í fyrsta skipti tjáð sig um árásina.

Salman sagðist í viðtali við New York Times að hún hefði ekki vitað af áætlunum eiginmanns hennar, Omar Mateen, um að ráðast á skemmtistaðinn Pulse.

„Ég vissi ekkert. Ég get ekki fyrirgefið honum. Ég er miður mín yfir því hvað gerðist en hann særði fjölda fólks,“ sagði Salman.

Viðtalið nú stemmir ekki við það sem hún sagði FBI þegar þeir yfirheyrðu hana nokkrum klukkustundum eftir árásina. Saksóknarar eru enn að velta því fyrir sér hvort hún verði ákærð vegna upprunalegu sögunnar; að hún hafi farið með manni sín­um að kaupa skot­færi, og að hún hefði einnig ekið hon­um á Pul­se-næt­ur­klúbb­inn ein­hverj­um dög­um áður en hann lét til skar­ar skríða, þar sem hann vildi kanna aðstæður. 

Salman sagði að Marteen hefði beitt hana líkamlegu og andlegu ofbeldi. Hann hefði oft lamið hana og kallað hana druslu.

Marteen var Banda­ríkjamaður af af­gönsk­um upp­runa sem varði stærst­um hluta æv­inn­ar í Flórída. Hann vildi verða lög­reglumaður en er sagður hafa barið kon­una sína. Hann kom reglu­lega til bæna í mosku en átti fáa vini.

FBI rannsakaði Marteen á árunum 2013 og 2014 eftir að hann tjáði sig á jákvæðan hátt um hryðjuverk en þau ummæli vöktu ugg hjá samstarfsmönnum hans.

„Ég er móðir,“ sagði Salman sem vill að fólk viti að hún er manneskja.

Hún sagði að Marteen hefði gefið henni þúsund dollara daginn fyrir árásina. Hann sagði henni og þriggja ára syni hennar að fara til Kaliforníu og kom ekki heim um kvöldið.

Hún sagði að hún og Mateen hefðu hist á stefnumótavefsíðunni Arab lounge. Síðustu skilaboðin sem hún fékk frá Marteen, rétt áður en hann var skotinn til bana, voru hvort hún hefði fylgst með fréttunum.

Salman svaraði því til að hún hefði ekki gert það. Marteen sagði þá að hann elskaði hana og eftir það heyrði hún ekki meira frá honum. 

Skotárás­in á Pul­se er sú mann­skæðasta í sögu Banda­ríkj­anna, en alls varð Mateen 49 manns að bana og særði 53 til viðbót­ar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert