Flug MH370 var stjórnlaust

Mögulegt brak úr MH370.
Mögulegt brak úr MH370. AFP

Þota Malaysian Air, flug MH370, var algjörlega stjórnlaus þegar hún hrapaði í sjóinn og höfðu flugmenn ekki undirbúið vængbúnað þotunnar undir lendingu.

Í nýrri skýrslu sem byggist á flapa (hreyfanlegar plötur á afturhluta aðalvængjanna) (wingflaps) sem fannst, fyrir utan strönd Tansaníu, kemur fram að flaparnir hafi ekki verið dregnir út þegar þeir losnuðu frá vængnum sem þykir benda til að lending hafi ekki verið undirbúin þegar vélin brotlenti í sjónum. 

Skýrslan, sem unnin er af flugöryggisnefnd Ástralíu, byggist einnig á síðustu samskiptum flugmanna við flugturn og þar kemur ekkert fram sem bendir til þess að flugmennirnir geri sér grein fyrir því að eitthvað bjáti á. Þetta þykir benda til þess að litlar líkur séu á því að einhver hafi vísvitandi brotlent vélinni. Boeing 777 þota Malaysia Airlines hvarf á leið frá Kuala Lumpur til Peking 8. mars 2014 með 239 um  borð.

Samgönguráðherra Ástralíu, Darren Chester, segir að í skýrslunni sé að finna nýjar upplýsingar um hvað yfirvöld telji að hafi gerst. Fundur sérfræðinga um framhald leitar að braki vélarinnar hófst í Canberra í dag. 

Þrátt fyrir gríðarlega leit neðansjávar meðfram vesturströnd Ástralíu hefur ekkert brak úr þotunni fundist. Sérfræðingar hafa hins vegar staðfest að þrír hlutir sem fundust á Indlandshafi hafi verið úr MH370. Leitarsvæðið er mjög víðfeðmt en stefnt er að því að hætta leit snemma á næsta ári.

Fundist hafa um 20 hlutir sem jafnvel eru taldir brak úr þotunni á strönd fjögurra eyja í Indlandshafi, Madagaskar, Mauritius, Reunion og Rodrigues.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert