Munu óska eftir lífsýni úr Assange

Assange hefur dvalið í sendiráði Ekvador í Lundúnum í fjögur …
Assange hefur dvalið í sendiráði Ekvador í Lundúnum í fjögur ár. AFP

Julian Assange verður yfirheyrður í næstu viku vegna áskana um nauðgun. Sænsk yfirvöld hafa freistað þess að ná tali af Wikileaks-stofnandanum, sem hefst við í sendiráði Ekvador í Lundúnum.

Samkvæmt yfirlýsingu frá sænska ákæruvaldinu verður lífsýni tekið þegar yfirheyrslurnar fara fram, að því gefnu að Assange veiti heimild fyrir því. Hann hefur staðfastlega neitað þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar.

Assange verður yfirheyrður af ekvadorskum saksóknara, en sænskur saksóknari og rannsóknarlögreglumaður verða viðstaddir. Yfirheyrslurnar fara fram 14. nóvember.

Hinn 45 ára Ástrali leitaði skjóls í sendiráðinu í júní 2012 en brotin eru sögð hafa átt sér stað 2010.

Assange neitaði að ferðast til Svíþjóðar til yfirheyrslu af ótta við að verða framseldur þaðan til Bandaríkjanna, vegna birtingar Wikileaks á gögnum bandarískra stjórnvalda um stríðin í Afganistan og Írak. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert