Heitir því að flytja milljónir úr landi

Verðandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump.
Verðandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump. AFP

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, segist munu standa við kosningaloforð sitt um að flytja á brott úr landinu milljónir óskráðra innflytjenda. Þetta segir hann í viðtali sem fréttastofa CBS hefur tekið við hann fyrir fréttaskýringaþáttinn 60 Minutes, en brot úr viðtalinu hefur nú verið birt.

Segir Trump að allt að þrjár milljónir manna gætu verið fluttar úr landinu eftir að hann tekur við embætti forseta í janúar.

„Það sem við ætlum að gera er að ná fólkinu sem er glæpamenn og hefur flekkaða sakaskrá, meðlimi glæpagengja, eiturlyfjasala, það er mikið af þessu fólki, líklega tvær milljónir, gætu jafnvel verið þrjár milljónir. Við erum að fara að fá þau burt úr landinu okkar eða við fangelsum þau,“ segir Trump í viðtalsbrotinu.

Segist munu reisa vegginn

Auðkýfingurinn gerði öryggi landamæranna við Mexíkó að einu mikilvægasta máli kosningabaráttu sinnar, sem endaði með óvæntum sigri gegn Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata, á þriðjudag.

Spurður hvort hann hyggist í alvöru reisa vegg við landamærin, eins og hann hefur áður lofað, svaraði Trump einfaldlega, „Já.“

Þó gæti „veggurinn“ að hluta til verið einföld girðing.

„Það gæti verið einhver girðing,“ sagði Trump í þessu fyrsta stóra viðtali sem hann hefur gefið síðan hann var kjörinn forseti.

„En á völdum svæðum, þá hentar veggur betur. Ég er mjög góður í þessu, þetta kallast byggingaframkvæmdir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert