Vilja tryggingu fyrir því að Assange verði ekki framseldur til Bandaríkjanna

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Stjórnvöld í Ekvador hafa farið fram á að fá fullvissu fyrir því að Julian Assange verði ekki framseldur til Bandaríkjanna ef hann yfirgefur sendiráð Ekvador í Lundúnum. Haft er eftir utanríkisráðherranum Guillaume Long að hann hafi farið þess á leit við bresk og sænsk stjórnvöld.

Assange, 45 ára, hefur hafst við í sendiráðinu frá 2012 til að forðast framsal til Svíþjóðar, þar sem hann hefur verið ásakaður um nauðgun.

„Ef hann er raunverulega eftirlýstur í Svíþjóð í tengslum við hin meintu kynferðisbrot, þá er það allt í lagi, en það á ekki að framselja hann til þriðja ríkis,“ sagði Long í samtali við fréttasíðuna Ecuadorinmediato.

Hann sagði að senda mætti Assange til Svíþjóðar, að því gefnu að ekki væri um að ræða fyrirslátt til að framselja hann áfram.

Assange óttast að verða framseldur frá Svíþjóð til Bandaríkjanna, þar sem hann á yfir höfði sér langa fangelsisvist vegna birtingu Wikileaks á gögnum tengdum stríðunum í Afganistan og Írak.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert