Gefur prestum varanlegt vald til að fyrirgefa fóstureyðingar

Páfi vígir kardinála. Áður gátu aðeins biskupar fyrirgefið fóstureyðingar. Nú …
Páfi vígir kardinála. Áður gátu aðeins biskupar fyrirgefið fóstureyðingar. Nú hafa prestar sama vald. AFP

Frans páfi hefur veitt kaþólskum prestum vald til að fyrirgefa fóstureyðingar. Þetta tilkynnti hann í dag. „Ég vil ítreka eins einarðlega og ég get að fóstureyðing er alvarleg synd, þar sem hún bindur enda á saklaust líf,“ sagði páfi.

„En á sama tíma get ég og verð að segja að það er engin synd sem miskunn guðs nær ekki til og þurrkar út, þegar hún finnur fyrir iðrandi hjarta sem leitast við að rata aftur til föðurins.“

Bauð hann því öllum prestum að veita leiðsögn, stuðning og huggun til „iðrandi syndara“ á þessari vegferð sátta. „Ég veiti héðan af öllum prestum, í krafti embættis síns, getuna til að veita þeim aflausn sem hafa framið synd fóstureyðingarinnar.“

Kaþólska kirkjan hefur lengi haft þá afstöðu til fóstureyðinga að þær séu „siðferðileg illska“. Samkvæmt kirkjunni er allt líf, frá getnaði til dauða, heilagt. Þá hafa viðurlögin við fóstureyðingu verið bannfæring, nokkuð sem engir nema biskupar hafa getað snúið fram til þessa.

Í fyrra gaf páfi prestum vald til að fyrirgefa fóstureyðingar á ári miskunarinnar; frá 8. desember 2015 til 20. nóvember 2016. Nú virðist hann hafa ákveðið að gera vald prestanna varanlegt.

mbl.is