Lögreglumaður skotinn til bana

Collin Rose.
Collin Rose. Af vef Wayne State háskólans

Lögreglumaður við Wayne State-háskólann lést í gærkvöldi af völdum áverka sem honum voru veittir í starfi kvöldið áður í Detroit. 

Að sögn lögreglustjórans í Detroit, James Craig, var maður, sem er grunaður um morðið, handtekinn eftir að hafa verið leitað í nokkrar klukkustundir. Hann er nú í haldi lögreglu, samkvæmt frétt Washington Post.

Lögreglumaðurinn, Collin Rose 29 ára, var að rannsaka þjófnað úr bifreiðum sem tilkynnt hafði verið um til lögreglunnar þegar hann stöðvaði mann á reiðhjóli, sagði Craig á blaðamannafundi í gærkvöldi. Þegar annar lögreglumaður kom á vettvang að beiðni Rose, fann hann félaga sinn á lífi en með alvarlega skotáverka á höfði. Skotsárin voru ekki úr byssu lögreglumannsins og er lögregla enn að leita að morðvopninu.

Rose var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var strax sendur í aðgerð en ekki tókst að bjarga lífi hans og lést hann í gær, sólarhring eftir árásina.

Ekki er vitað hvers vegna Rose var skotinn til bana en samkvæmt vitnum er sá sem er grunaður um morðið tíður gestur á þessu svæði. Þegar Rose stöðvaði hann var hann á bláu fjallahjóli sem fannst síðar yfirgefið skammt frá.

Kona sem er húsvörður í fjölbýlishúsi skammt frá varð vitni að morðinu. Hún segir að hún hafi lent í deilum við hjólreiðamanninn og þegar hann vildi ekki yfirgefa svæðið hafi hún hringt í Neyðarlínuna. Stuttu síðar sá hún lögreglumanninn koma á vettvang. Hún segir að lögreglumaðurinn hafi verið að reyna að koma höndum mannsins fyrir aftan bak þegar skothvellur hafi heyrst og lögreglumaðurinn fallið á jörðina. Skömmu síðar heyrðust tveir skothvellir.

Háskólayfirvöld minnast Rose á vef sínum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert