Skyrbjúgur skýtur upp kollinum á ný

Ávextir og grænmeti gegna lykilhlutverki í að koma í veg …
Ávextir og grænmeti gegna lykilhlutverki í að koma í veg fyrir skyrbjúg. AFP

Skyrbjúgur, hörgulsjúkdómur sem flestir tengja við sjómenn á löngum siglingaleiðum, er að skjóta upp kollinum á nýjan leik í Ástralíu. Sjúkdómurinn stafar af skorti á C-vítamíni og blóðleysi vegna skorts á járni, B1-vítamíni, fólasíni, B12-vítamíni eða öðrum næringarefnum. 

Skyrbjúgur var mjög algengur hér fyrr á öldum og gat jafnvel reynst bannvænn meðal sjómanna sem voru mánuði á siglingu án þess að fá ferska ávexti og grænmeti. Sjúkdómurinn hefur vart greinst í þróuðum ríkjum í langan tíma en allt bendir til þess að þetta vandamál sé ekki bara að koma upp í Ástralíu heldur einnig Bretlandi og á Spáni.

Appelsínur eru fullar af C-vítamínum og bráðhollar.
Appelsínur eru fullar af C-vítamínum og bráðhollar. AFP

Jenny Gunton, sem leiðir rannsóknarmiðstöð lífstílssjúkdóma í Sydney (Centre for Diabetes, Obesity and Endocrinology) segir ástæðuna fyrir því að skyrbjúgur greinist á ný þar í landi vera lélegt mataræði.

Hún greindi sjúkdóminn meðal nokkurra sjúklinga í Ástralíu og segir að í ljós hafi komið að einn borðaði aldrei ávexti og grænmeti og hinir mjög lítið. Ef þeir borðuðu grænmeti þá var það soðið í mauk sem eyðir öllu C-vítamíni úr grænmeti.

Mælt er með því að til þess að koma í veg fyrir skyrbjúg eigi fólk að borða appelsínur, jarðarber, spergilkál, kíví, papriku og greip. En ef grænmetið er ofeldað hverfa næringarefnin úr því.

Á Vísindavef Háskóla Íslands er að finna fróðlega grein um James Lind (1716-1794) sem var merkur herlæknir sem fæddist í Edinborg í Skotlandi. Hann er helst þekktur fyrir að hafa fundið forvörn og lækningu við skyrbjúg (e. scurvy) en auk þess var hann mikill talsmaður almenns hreinlætis um borð í skipum breska sjóhersins.

Ávextir og grænmeti eru nauðsynleg til þess að lifa heilbrigðu …
Ávextir og grænmeti eru nauðsynleg til þess að lifa heilbrigðu lífi. AFP

Á 16. öld var skyrbjúg lýst nákvæmlega og gefið nafn og sjómenn tóku að óttast sjúkdóminn á löngum sjóferðum sínum. Það var þó ekki fyrr en öldum seinna sem orsök skyrbjúgs, skortur á C-vítamíni, varð ljós.

Á tímum James Lind var hugtakið „vítamín“ hins vegar óþekkt og samhengi mataræðis og sjúkdóma flestum sérfræðingum hulin ráðgáta. Einkenni skyrbjúgs eru almenn þreyta, öndunarfærasýkingar og öndunarerfiðleikar, verkir í vöðvum og beinum, þunglyndi, blæðingar frá húð og slímhúð auk blæðinga og bólgu í gómum. Þá geta tennur losnað, skyrbjúgssjúklingar fá krampa og deyja að lokum ef þeir fá ekki viðeigandi meðferð með C-vítamíni.

James Lind var aðeins 15 ára árið 1731 þegar hann hóf læknanám sitt sem lærlingur hjá dr. George Langlands. Eftir að hafa klárað þjálfun sína hjá honum hóf Lind störf hjá breska sjóhernum árið 1739 þar sem hann vann sem aðstoðarmaður herlæknis. Árið 1747 var hann gerður að herlækni um borð í herskipinu HMS Salisbury þar sem hann framkvæmdi tilraun á sjóliðum með skyrbjúg. Sú tilraun er sögð vera ein fyrsta klíníska tilraun sögunnar. Tilraun Lind fólst í því að 12 langt leiddum skyrbjúgssjúklingum var skipt í sex hópa sem gefin voru mismunandi meðul sem innihéldu meðal annars edik, eplasafa og sjó. Einn hópur fékk hins vegar tvær appelsínur og eina sítrónu daglega en meðferðinni var sjálfhætt eftir aðeins 6 daga þar sem sítrusávextirnir kláruðust um borð í skipinu. Þá höfðu mennirnir hins vegar náð undraverðum bata meðan aðrir sjúklingahópar sýndu lítil sem engin batamerki.

James Lind var ekki sá fyrsti sem tengdi lækningaverkun ávaxta við skyrbjúg en hann var fyrstur til að sýna fram á lækningu með sítrusávöxtum í þessari frægu tilraun sinni um borð í HMS Salisbury. John Woodall (1569-1643) benti til dæmis á að ferskir ávextir virtust hafa lækningagildi gegn skyrbjúg en samt sem áður varð notkun þeirra ekki útbreidd á langferðum skipa. Ýmsar tilgátur voru á sveimi um hvað ylli þessum hræðilega sjúkdómi og taldi til dæmis einn frægasti læknir Englendinga og samtímamaður James Lind, William Cockburn (1669-1739), að skyrbjúgur orsakaðist af meðfæddri leti sjómanna. Skyrbjúgur varð þannig að feimnismáli og oft vildu skipstjórar ekki kannast við að hafa misst sjóliða úr sjúkdómnum þótt einungis hluti manna skilaði sér lifandi til baka eftir langferðir á sjó.

Skyrbjúgur tók gríðarlegan toll af sjóliðum og gat þannig haft áhrif á framgang átaka á milli landa. James Lind taldi að fleiri hermenn breska flotans dæju vegna skyrbjúgs heldur en af völdum óvinaherja Frakklands og Spánar. Til að mynda létust um 1.400 af 1.900 sjóliðum undir forystu breska aðmírálsins Ansons á siglingum hans umhverfis jörðina. Flestir þeirra dóu úr skyrbjúg en aðeins örfáir í átökum. Það var því til mikils að vinna að finna lækningu við skyrbjúg.

 Stuttu eftir tilraun sína um borð í HMS Salisbury yfirgaf James Lind sjóherinn, kláraði læknanám sitt og lagðist í frekari rannsóknir á skyrbjúg. Árið 1753 gaf hann út bókina A Treatise of the Scurvy. Lind var augljóslega mjög umhugað um heilsu sjóliða eftir veru sína í sjóhernum því fjórum árum síðar gaf hann út bókina An essay on the most effectual means of preserving the health of seamen. Í þeirri bók mælti Lind áfram með því að sjóliðum væri gefinn safi úr sítrusávöxtum á löngum sjóferðum til að varna því að þeir fengju skyrbjúg.

Hér er hægt að lesa nánar um James Lind á Vísindavefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert